Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Nóvembernámskeiðin

Eins og flesta aðra mánuði yfir  veturinn er ýmislegt spennandi í boði hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða í nóvember. Fyrir þá sem vilja bæta tölvukunnáttuna þá hefst excelnámskeið á Ísafirði þriðjudaginn 1. nóvember og er það ætlað fólki sem þarf að nota forritið en hefur ekki mikla reynslu.

Næst síðasti fyrirlestur í röðinni um þriðja skeiðið verður fimmtudaginn 10. nóvember og verður þá fjallað um frjáls félagasamtök. Þessir fyrirlestrar eru sendir í gegnum fjarfund til Hólmavíkur og Patreksfjarðar.

Um miðjan mánuðinn er svo hægt að gá til veðurs á spennandi námskeiði sem kennt er á Hólmavík og fjarkennt á aðra staði.

Á Ísafirði verður hitað upp fyrir jólin með konfektnámskeiði og á Hólmavík með kökuskreytingarnámskeiði. Þá verður hægt að fá leiðbeiningar um hvernig best er að setja upp andlitið á tveimur förðunarnámskeiðum.

Bókaormar geta líka fundið eitthvað við sitt hæfi því á degi íslenskrar tungum verður námskeið um ævi og verk Guðrúnar frá Lundi. Það námskeið er fjarkennt frá Sauðárkróki til Ísafjarðar, Patreksfjarðar og Hólmavíkur.

En allt byggist þetta auðvitað á því að það náist lágmarks þátttaka á námskeiðin. Áhugasamir eru því hvattir til að skrá sig sem fyrst.

Allar nánari upplýsingar um þessi og önnur námskeið má nálgast hér á vefnum og með því að hafa samaband í síma 456 5025.

Meðferð matvæla

Námsleiðin Meðferð matvæla hefur verið vinsæl hjá okkur og hefur verið almenn ánægja með hana. Saloma Elín Ingólfsdóttir næringarfræðingur hefur kennt flest alla þætti og hefur henni tekist einstaklega vel með að kenna þetta í fjarnámi, eins og boðið er upp á núna líka.

Með því að kenna svona námsleið í fjarnámi gefst fólki allsstaðar frá að nýta sér þetta nám. Hægt er að vera heima í stofu og taka þátt ef svo vill til.

Námið samanstendur af ýmsum stuttum og hagnýtum þáttum m.a. gæði og öryggi við meðferð matvæla, matvælavinnsla, þrif og sótthreinsun, merkingar á umbúðum matvæla, geymsluþol, ofnæmi og óþol, hollusta máltíða og fæðuflokkarnir.

Þetta er 60 kennslustunda nám ætlað þeim sem starfa við meðhöndlun matvæla svo sem starfsfólki í mötuneytum, veitingahúsum og verslunum. Einnig hentar þetta þeim sem hafa hug á raunfærnimati í framhaldsnám í matvælaiðnaði.

Námið hefst mánudaginn 7. nóvember verður kennt tvisvar í viku, mánudaga og fimmtudaga kl. 19 - 22. Á þessari önn verða kenndar 40 kennslustundir og 20 kennslustundir eftir áramót. Náminu lýkur mánudaginn 23. janúar 2017.

Verð fyrir námsleiðina er 13.000 kr. á þátttakanda.

Eldri færslur