Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Vilt þú kenna á fiskvinnslunámskeiði?

Myndin er frá útskrift af fiskvinnslunámskeiði á Ísafirði árið 2012.
Myndin er frá útskrift af fiskvinnslunámskeiði á Ísafirði árið 2012.

Fræðslumiðstöð Vestfjarða leitar að manneskju til að kenna faggreinar í fiskvinnslu á Vestfjörðum.

Kennt er samkvæmt námsskránni Grunnám fyrir fiskvinnslufólk, sem er ein af vottuðum námsskrám Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, sjá nánar hér.

Starfsfólk Fisktækniskóla Íslands hefur kennt þessar greinarnar með miklum ágætum um land allt. Það munu þau vonandi gera áfram. Þar sem mörg fiskvinnslufyrirtæki á landinu vilja hins vegar gjarnan fá þessi námskeið á sama tíma væri heppilegt að hér heima væri fólk sem gæti kennt þessa námsþætti á sama hátt og heimafólk kennir almennu námsþættina í námskránni.

Námsskráin Grunnám fyrir fiskvinnslufólk samanstendur af 12 námsþáttum sem hver er 4 klukkustundir. Námsskráin er því kennd á 48 klukkustundum eða 6 vinnudögum. Öll kennsla fer fram á dagvinnutíma. Námsþættirnir eru:

  • Atvinnulífið, starfsfólkið og launakerfin
  • Fiskvinnsla – veiðar, vinnslugreinar og markaðsmál
  • Fjölmenning
  • Gæði meðferð matvæla - frá veiðum til vinnslu
  • Hreinlæti og gerlagróður
  • Innra eftirlit í fiskvinnslu fyrirtækjum
  • Samstarf og samskipti á vinnustað
  • Sjálfstyrking
  • Skyndihjálp
  • Umhverfismál og ábyrgar fiskveiðar
  • Vinnuaðstaða og líkamsbeiting
  • Öryggi á vinnustöðum

Fagþættirnir sem kennara vantar í eru:

  • Fiskvinnsla – veiðar, vinnslugreinar og markaðsmál
  • Gæði meðferð matvæla - frá veiðum til vinnslu
  • Hreinlæti og gerlagróður
  • Innra eftirlit í fiskvinnslu fyrirtækjum
  • Umhverfismál og ábyrgar fiskveiðar

Þessi kennsla er ekki stöðug heldur uppáfallandi. Mikilvægt er að geta brugðist skjótt við þegar óskir berast frá fiskvinnslufyrirtækjunum. Kennslan er skemmtileg og gefandi og ágætis aukatekjur fyrir þá sem gætu kennt þetta.

Skilyrði fyrir kennslu er fagþekking í viðkomandi greinum og að þekkja til starfa í fiskvinnslu.

Auk þess þarf viðkomandi að uppfylla þær almennu kröfur sem gerðar eru til starfsfólk hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða, sem einkum eru samviskusemi, heiðarleiki og góð mannleg samskipti.

Þeir sem hefðu áhuga snúi sér til Smára Haraldssonar forstöðumanns í síma 456 5033 eða netfang smari@frmst.is

Allar ábendingar um heppilega kennara eru líka vel þegnar.

Nóvembernámskeiðin

Eins og flesta aðra mánuði yfir  veturinn er ýmislegt spennandi í boði hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða í nóvember. Fyrir þá sem vilja bæta tölvukunnáttuna þá hefst excelnámskeið á Ísafirði þriðjudaginn 1. nóvember og er það ætlað fólki sem þarf að nota forritið en hefur ekki mikla reynslu.

Næst síðasti fyrirlestur í röðinni um þriðja skeiðið verður fimmtudaginn 10. nóvember og verður þá fjallað um frjáls félagasamtök. Þessir fyrirlestrar eru sendir í gegnum fjarfund til Hólmavíkur og Patreksfjarðar.

Um miðjan mánuðinn er svo hægt að gá til veðurs á spennandi námskeiði sem kennt er á Hólmavík og fjarkennt á aðra staði.

Á Ísafirði verður hitað upp fyrir jólin með konfektnámskeiði og á Hólmavík með kökuskreytingarnámskeiði. Þá verður hægt að fá leiðbeiningar um hvernig best er að setja upp andlitið á tveimur förðunarnámskeiðum.

Bókaormar geta líka fundið eitthvað við sitt hæfi því á degi íslenskrar tungum verður námskeið um ævi og verk Guðrúnar frá Lundi. Það námskeið er fjarkennt frá Sauðárkróki til Ísafjarðar, Patreksfjarðar og Hólmavíkur.

En allt byggist þetta auðvitað á því að það náist lágmarks þátttaka á námskeiðin. Áhugasamir eru því hvattir til að skrá sig sem fyrst.

Allar nánari upplýsingar um þessi og önnur námskeið má nálgast hér á vefnum og með því að hafa samaband í síma 456 5025.

Eldri færslur