Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Útvarp sem skapandi miðill - nýtt námskeið á nýju ári

Eitt af fyrstu námskeiðum ársins 2017 kallast Útvarp sem skapandi miðill - þættir af mannabyggð og snortinni náttúru. Um er að ræða námskeið í útvarpsþáttagerð á vegum Kol og salt í samstarfi við Prófessorsembætti Jón Sigurðssonar og Fræðslumiðstöð Vestfjarða.

Markmið námskeiðsins er að kynna fyrir þátttakendum eðli og möguleika útvarps/hljóðmiðilsins og ólíkar leiðir til að segja sögur í gegnum útvarp. Einnig að opna nemendum gáttir til að nýta sér útvarpsmiðilinn á frjóan, áhugaverðan og persónulegan hátt og kynna fyrir nemendum grunnatriði sem lúta að viðtalstækni, klippingu, heimilda- og hugmyndavinnu

Afrakstur námskeiðsins eru þættir sem þátttakendur vinna á tímabilinu - í kringum hálftíma langir. Búin verður til hlaðvarpssíða sem vistar alla þætti verkefnisins og úrval þeirra síðan sent út á Rás 1. Næstu vikur og mánuði eftir að námskeiðinu lýkur verða framleiddir fleiri þættir í samráði við ritstjórn verkefnisins. Greitt verður fyrir alla þætti sem teknir eru til flutnings.

Kennarar eru ekki af verri endanum en aðal kennarar og umsjónarmenn námskeiðsins eru Elísabet Indra Ragnarsdóttir og Þorgerður E Sigurðardóttir. Gestakennarar verða m.a. Eiríkur Guðmundsson, Eiríkur Örn Norðdahl, Finnbogi Hermannsson, Halla Ólafsdóttir, Pétur Grétarsson og Vera Illugadóttir.

Kennt verður helgina 14./15. janúar og helgina 11./12. febrúar. Vikurnar fjórar þar á milli verður kennt eitt kvöld í viku í fjarkennslu kl. 17 - 19. Nemendur fá heimaverkefni í viku hverri. Gera þarf ráð fyrir allt að þremur klst. á viku í heimavinnu. Helgarlotur verða á Ísafirði, fjarnám geta nemendur stundað þar sem þeir kjósa.

Áhugasamir skrá sig á námskeiðið hér á síðunni undir Námskeið. Viðbótarupplýsingar sem þurfa að fylgja umsókninni þarf að senda í tölvupósti á smari@frmst.is. Þetta eru upplýsingar um menntun og reynslu viðkomandi sem gæti nýst við gerð útvarpsþátta (stutt ferilskrá, ein A4 síða að hámarki). Einnig er beðið um hugmyndir að efni fyrir þætti sem viðkomandi gæti hugsað sér að vinna að (200 orð að hámarki). Farið verður með þessar upplýsingar sem trúnaðarmál.

Nánari upplýsingar veitir Elísabet Gunnarsdóttir í síma 868 1845.

Fiskvinnslunámskeið hjá HG

Hraðfrystihúsið-Gunnvör í Hnífsdal (mynd úr bb.is)
Hraðfrystihúsið-Gunnvör í Hnífsdal (mynd úr bb.is)

Þegar verkfall sjómanna brast á um miðjan desember og landaður afli hafði verið unninn, notaði Hraðfrystihúsið-Gunnvör tækifærið og fékk Fræðslumiðstöðina til að halda námskeið fyrir starfsfólkið. Kennd var námsskrá sem sérstaklega var skrifuð fyrir fiskvinnslufólk og gefur að lokinni starfsþjálfun starfsheitið sérhæfður fiskvinnslumaður. Allir þátttakendur í náminu hafa unnið það lengi í fiskvinnslu að þeir teljast hafa lokið starfsþjálfuninni.

Fiskvinnslunámið er 48 klukkustundir og samanstendur af 12 námsþáttum. Þeir eru ærið mismunandi en allir sérsniðnir fyrir viðkomandi störf. Í náminu er farið í sjálfstyrkingu, samskipti, fjölmenningu, öryggismál, kjarasamninga, gefin yfirsýn yfir greina sem og markaðsmál og síðast en ekki síst er farið ítarlega í gæðamál og meðferð matvæla.

Námið var kennt á 6 dögum; fjórum fyrir jól og tveimur á milli jóla og nýárs. Meirihluti kennara eru heimamenn, en starfólk úr Fisktækniskóla Íslands kenndi 4 námsþætti. Vegna samgönguerfiðleika komu þau ekki vestur heldur kenndu úr Fisktækniskólanum í Grundavík í gegn um samskiptaforritið GoToMeeting. Stefna Fræðslumiðstöðvarinnar hefur verið að þjálfa heimafólk í að kenna þetta nám, en þó er mjög mikilvægt að halda tengslum við Fisktækniskólann, bæði vegna þeirra þekkingar sem þar er og ekki síður vegna samskipta við það ágæta fólk sem þar starfar.

Í fiskvinnslunáminu núna eru um 50 manns frá HG, auk þess sem 3 manneskjur frá fyrirtækinu Vestfiski tóku hluta námsins sem þær áttu óloknum. Kennt er hjá Fræðslumiðstöðinni að Suðurgötu 12 á Ísafirði. Fræðslumiðstöðin og starfsfólk hennar hefði ekki getað lokið starfsárinu 2016 á betri hátt. Með fiskvinnslunáminu uppfyllir miðstöðin þær megin skyldur sínar, sem eru að verða einstaklingum og fyrirtækjum á Vestfjörðum að liði. Takist okkur það erum við ánægð.

Eldri færslur