Alls konar í haust!
Dagskrá haustannar hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða er óðum að taka á sig mynd og að venju kennir ýmissa grasa; tungumál, tölvur, fjármál, matur, myndlist og fleira. Fólk er hvatt til að kynna sér dagskrána og skrá sig sem fyrst ef það sér eitthvað sem vekur áhuga.
Eftir frekar rysjótt sumar verður suðræn stemming í Fræðslumiðstöðinni í september. Í byrjun mánaðarins verður spænskunámskeið á Ísafirði þar sem nemendur kynnast spænskum mat og menningu samhliða því að þjálfa sig í tungumálinu. Um miðjan mánuðinn verður flamenco og salsa námskeið á Patreksfirði og seint í september verður eldaður mexíkóskur matur á námskeiði á Ísafirði. Seinna í haust gefst svo íbúum á sunnanverðum Vestfjörðum kostur á að læra spænsku á námskeiði sem byrjar í nóvember.
Fyrir listelskandi og skapandi fólk er tilvalið að skoða myndlistarnámskeið með Söru Vilbergs sem fyrirhugað er á Ísafirði í september.
Í september verður einnig námskeið um samningatækni á Ísafirði þar sem markmiðið er að auka hæfni þátttakenda til að leysa úr ágreiningi og ná hagstæðum niðurstöðum í samningum.
Boðið verður upp á byrjendanámskeið í pólsku bæði á Ísafirði og Patreksfirði. Tilvalin námskeið fyrir þau sem eiga samskipti við pólskumælandi fólk, vinnuveitendur, starfsfólk opinberra stofnana og þjónustufyrirtækja og aðra áhugasama.
Að venju eru nokkur íslenskunámskeið komin á dagskrá, á Ísafirði, Patreksfirði og fjarkennt námskeið. Ef áhugi er fyrir íslenskukennslu á fleiri stöðum er um að gera að hafa samband við Fræðslumiðstöðina og við skoðum hvað hægt er að gera í því.
Þrjú tölvunámskeið eru komin á dagskrá; grunnnámskeið í Teams, annað ætlað fólki sem hefur notað Teams en vill bæta við sig og svo námskeið um gervigreind. Þá verða tvö námskeið um fjármál, annað um persónuleg fjármál og hitt um lífeyrismál og starfslok. Þessi námskeið eru öll fjarkennd og getur því fólk sótt þau hvar sem það er statt.
Nokkur námskeið eru fyrir fólk sem er í atvinnuleit, ýmist staðkennd eða fjarkennd, á íslensku og ensku.
Svo má nefna smáskipanám, bæði vélstjórn og skipstjórn. Skipstjórnarnámskeiðið er þegar orðið fullt en tekið er við skráningum á biðlista. Nokkur pláss eru enn laus á vélstjórnarnámskeiðið en þau gætu fyllst fljótt.
Dagskráin er ekki endanleg, fleira á eftir að bætast við og því um að gera að fylgjast með. Starfsfólk Fræðslumiðstöðvarinnar tekur líka vel í allar tillögur og ábendingar um námskeið.
Að lokum má minna á aðra þjónustu Fræðslumiðstöðvarinnar sem alltaf er til staðar, þ.e. raunfærnimat, náms- og starfsráðgjöf og vinna með fyrirtækjum og stofnunum við gerð og framkvæmd fræðsluáætlana.