Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Alls konar í haust!

Dagskrá haustannar hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða er óðum að taka á sig mynd og að venju kennir ýmissa grasa; tungumál, tölvur, fjármál, matur, myndlist og fleira. Fólk er hvatt til að kynna sér dagskrána og skrá sig sem fyrst ef það sér eitthvað sem vekur áhuga.

Eftir frekar rysjótt sumar verður suðræn stemming í Fræðslumiðstöðinni í september. Í byrjun mánaðarins verður spænskunámskeið á Ísafirði þar sem nemendur kynnast spænskum mat og menningu samhliða því að þjálfa sig í tungumálinu. Um miðjan mánuðinn verður flamenco og salsa námskeið á Patreksfirði og seint í september verður eldaður mexíkóskur matur á námskeiði á Ísafirði. Seinna í haust gefst svo íbúum á sunnanverðum Vestfjörðum kostur á að læra spænsku á námskeiði sem byrjar í nóvember.

Fyrir listelskandi og skapandi fólk er tilvalið að skoða myndlistarnámskeið með Söru Vilbergs sem fyrirhugað er á Ísafirði í september.

Í september verður einnig námskeið um samningatækni á Ísafirði þar sem markmiðið er að auka hæfni þátttakenda til að leysa úr ágreiningi og ná hagstæðum niðurstöðum í samningum.

Boðið verður upp á byrjendanámskeið í pólsku bæði á Ísafirði og Patreksfirði. Tilvalin námskeið fyrir þau sem eiga samskipti við pólskumælandi fólk, vinnuveitendur, starfsfólk opinberra stofnana og þjónustufyrirtækja og aðra áhugasama.

Að venju eru nokkur íslenskunámskeið komin á dagskrá, á Ísafirði, Patreksfirði og fjarkennt námskeið. Ef áhugi er fyrir íslenskukennslu á fleiri stöðum er um að gera að hafa samband við Fræðslumiðstöðina og við skoðum hvað hægt er að gera í því.

Þrjú tölvunámskeið eru komin á dagskrá; grunnnámskeið í Teams, annað ætlað fólki sem hefur notað Teams en vill bæta við sig og svo námskeið um gervigreind. Þá verða tvö námskeið um fjármál, annað um persónuleg fjármál og hitt um lífeyrismál og starfslok. Þessi námskeið eru öll fjarkennd og getur því fólk sótt þau hvar sem það er statt.

Nokkur námskeið eru fyrir fólk sem er í atvinnuleit, ýmist staðkennd eða fjarkennd, á íslensku og ensku.

Svo má nefna smáskipanám, bæði vélstjórn og skipstjórn. Skipstjórnarnámskeiðið er þegar orðið fullt en tekið er við skráningum á biðlista. Nokkur pláss eru enn laus á vélstjórnarnámskeiðið en þau gætu fyllst fljótt.

Dagskráin er ekki endanleg, fleira á eftir að bætast við og því um að gera að fylgjast með. Starfsfólk Fræðslumiðstöðvarinnar tekur líka vel í allar tillögur og ábendingar um námskeið.

Að lokum má minna á aðra þjónustu Fræðslumiðstöðvarinnar sem alltaf er til staðar, þ.e. raunfærnimat, náms- og starfsráðgjöf og vinna með fyrirtækjum og stofnunum við gerð og framkvæmd fræðsluáætlana. 

Íslenskunám fyrir starfsfólk Arnarlax

Hluti af starfsmannahópi Arnarlax sem lauk 80 klukkustunda íslenskunámi.
Hluti af starfsmannahópi Arnarlax sem lauk 80 klukkustunda íslenskunámi.

Undanfarna mánuði hefur erlent starfsfólk Arnarlax á Bíldudal sótt íslenskunám hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða. Kennt var samkvæmt námskránni Að lesa og skrifa á íslensku frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, alls 80 klst. Námið hófst um miðjan mars og lauk í lok maí. Kennt var vikulega á fimmtudögum og föstudögum kl. 8-16 og fór kennslan fram í kaffistofu Arnarlax.

Nemendurnir voru alls 34 frá ýmsum löndum; Spáni, Kína, Taílandi, Marokkó, Póllandi, Úkraínu, Búlgaríu, Slóveníu og Venesúela en eru nú búsett á Patreksfirði, Tálknafirði og Bíldudal. Þau hafa dvalið mislengi á Íslandi og eru mislangt komin í íslensku en lögð var áhersla á að mæta hverju og einu þar sem þau eru stödd.

Kennarar og leiðbeinendur voru Barbara Gunnlaugsson, Sædís María Jónatansdóttir, Helga Konráðsdóttir og Ilona Dobosz.  Þær eru sammála um að vel hafi tekist til, nemendurnir voru áhugasamir og sýndu góðar framfarir á þessum vikum. Nemendurnir voru líka almennt ánægðir eins og þessi dæmi um umsagnir í lok námskeiðsins sýna:

  • Fyrir námskeiðið fannst mér ómögulegt að læra íslensku og nú sé ég það sem mögulegt.
  • The whole course was really interesting, sure I learned something useful and something new. It was a pleasure to meet the teachers that tried to explain everything to us so we could understand.
  • Námskeiðið var áhugavert og verður í minningunni.
  • Framúrskarandi kennarar. Takk Arnarlax.
  • I want more teaching to happen. I felt I learned more and I wanted to learn more and I really liked both teachers. If possible, I would like to have more lessons. Thank you very much. 
  • Þökk sé Arnarlaxi og kennurum, allt var frábært.

Í ljósi allrar umræðu um mikilvægi þess að auðvelda fólki af erlendum uppruna aðgang að íslensku máli og þar með íslensku samfélagi þá er til fyrirmyndar að fyrirtæki bjóði starfsfólki sínu að sækja íslenskunám á vinnutíma. Fræðslumiðstöðin vill þakka Arnarlaxi fyrir sérlega gott samstarf og vonar að þessir nemendur fái tækifæri til þess að halda áfram að æfa sig í íslensku bæði í vinnunni og úti í samfélaginu.

Eldri færslur