Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Svæðisleiðsögunám í haust

Nú í haust mun Fræðslumiðstöð Vestfjarða, í samvinnu við Leiðsöguskólann í Kópavogi, bjóða upp á nám í svæðisleiðsögn fyrir Vestfirði. Námið hefst í október og spannar alls þrjár annir, en einnig er mögulegt að taka staka áfanga hafi fólk t.d. áður lokið hluta af náminu eða ef starfandi leiðsögumenn vilja taka það sem endurmenntun. 

Ferðaþjónusta á Vestfjörðum er í örum vexti og tækifærunum til að hasla sér völl í greininni fer stöðugt fjölgandi. Svæðisleiðsögunámið er gott veganesti fyrir alla sem þar vilja starfa og er alls ekki bundið eingöngu við leiðsögufólk. Námið nýtist nefnilega öllum sem á einhvern hátt koma að þjónustu og aðstoð við ferðamenn. Það veitir þátttakendum tækifæri til kynnast sögu, náttúru og mannlífi Vestfjarða betur og um leið að auka færni sína og hæfni til að standast vaxandi kröfur um færni og fagmennsku í ferðaþjónustu. 

Nám í svæðisleiðsögn er víðfeðmt, fjölbreytt og umfram allt skemmtilegt. Fjallað er um jarðfræði, sögu og menningu, gróður, dýralíf, atvinnuvegi, samfélag, bókmenntir og listir. Nemendur eru fræddir um áhugaverða staði á Vestfjörðum, náttúruvernd, umhverfismál og leiðsögutækni. Fyrirlesarar og kennarar eru allir sérfróðir um einstaka málaflokka. 

Námið er 22 einingar og skiptist niður á þrjár annir, haustönn 2023 og vorönn og haustönn 2024. Um er að ræða fjarnám og staðnám í helgarlotum. Gert er ráð fyrir 4-5 staðlotum á tímabilinu, víðsvegar um Vestfirði auk prófalotu í lokin. Námið fer fram á íslensku fyrir utan að nemendur geta valið að fá þjálfun í leiðsögn á ensku (eða öðru tungumál ef næg þátttaka fæst). 

Umsækjendur þurfa að vera orðnir 21 árs við upphaf námsins, hafa lokið stúdentsprófi eða sambærilegt námi, ásamt því að hafa gott vald íslensku og einu erlendu tungumáli. 

Svæðisleiðsögunámið kostar 365.000 kr. og er mögulegt að skipta greiðslum á annir. Þátttakendur eru hvattir til að kanna styrki hjá stéttarfélögum. Kostnaður vegna vettvangsferða í staðlotum er innifalinn í verði en nemendur greiða sjálfir ferðir, gistingu og mat.  

Viðtökur við svæðisleiðsögunáminu eru góðar en þó eru enn nokkur sæti laus í hópnum. Þau sem eru áhugasöm eru því hvött til að skrá sig sem fyrst. 

Umsjón með náminu hefur Sólveig Bessa Magnúsdóttir verkefnastjóri hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða og svæðisleiðsögumaður en hún veitir einnig frekari upplýsingar. Nánar um námið hér á vef miðstöðvarinnar.

 

Smáskipanám skipstjórn og vélstjórn - Útskrift

Við hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða erum stolt að segja frá útskrift nemenda nú í vor á skipstjórnar og vélstjórnarbrautum.

Alls luku 30 nemendur smáskipanámi, þar af 21nemandi í smáskipanámi skipstjórn og 9 nemendur smáskipanámi vélstjórn.

Það er löng hefð fyrir smáskipanámi hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða en þetta er annað árið sem kennt er eftir nýrri og uppfærðri námsskrá.

Nemendur komu víðsvegar að, flestir eru þó búsettir og/eða starfandi á Vestfjörðum  en þar sem námið er að miklu leyti fjarnám skiptir búseta ekki máli fyrir þátttöku. Auk fjarnáms voru ákveðnir námsþættir kenndir í staðlotum, bæði á Ísafirði og í Skipstjórnarskólanum í Reykjavík.

Kennarar í náminu voru  Hjalti Már Magnússon, Jóhann Bæring Gunnarsson og Nanna Bára Maríasdóttir. Auk þeirra voru kennarar Skipstjórnarskólans þau Karitas Þórðardóttir, Vilbergur Magni Óskarsson, Björgvin Þór Steinsson og Ríkharður Björgvin Ríkharðsson.

Fræðslumiðstöð Vestfjarða hefur átt í góðu samstarfi við Véltækni og Skipstjórnarskólann í Reykjavík þar sem skipstjórnarnemendur taka kennslu í siglingahermi og fjarskiptum. Einnig er samstarf við Menntaskóann á Ísafirð þar sem verkleg kennsla í vélstjórnarhluta námsins fer fram.

Umsjónarmaður námsins fyrir hönd Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða var Sólveig Bessa Magnúsdóttir.

Stefnt er að því að fara árlega af stað með hópa í smáskipanámi, bæði skipstjórn og vélstjórn, byrja í október og útskrifa að vori.

Fræðslumiðstöð Vestfjarða óskar hópnum til hamingju með útskriftina og velfarnaðar í störfum.

 

Skránign er hafin fyrir haustið:

https://www.frmst.is/nam/#filter~54 

 

Eldri færslur