Íslenskunám fyrir starfsfólk Arnarlax
Undanfarna mánuði hefur erlent starfsfólk Arnarlax á Bíldudal sótt íslenskunám hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða. Kennt var samkvæmt námskránni Að lesa og skrifa á íslensku frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, alls 80 klst. Námið hófst um miðjan mars og lauk í lok maí. Kennt var vikulega á fimmtudögum og föstudögum kl. 8-16 og fór kennslan fram í kaffistofu Arnarlax.
Nemendurnir voru alls 34 frá ýmsum löndum; Spáni, Kína, Taílandi, Marokkó, Póllandi, Úkraínu, Búlgaríu, Slóveníu og Venesúela en eru nú búsett á Patreksfirði, Tálknafirði og Bíldudal. Þau hafa dvalið mislengi á Íslandi og eru mislangt komin í íslensku en lögð var áhersla á að mæta hverju og einu þar sem þau eru stödd.
Kennarar og leiðbeinendur voru Barbara Gunnlaugsson, Sædís María Jónatansdóttir, Helga Konráðsdóttir og Ilona Dobosz. Þær eru sammála um að vel hafi tekist til, nemendurnir voru áhugasamir og sýndu góðar framfarir á þessum vikum. Nemendurnir voru líka almennt ánægðir eins og þessi dæmi um umsagnir í lok námskeiðsins sýna:
- Fyrir námskeiðið fannst mér ómögulegt að læra íslensku og nú sé ég það sem mögulegt.
- The whole course was really interesting, sure I learned something useful and something new. It was a pleasure to meet the teachers that tried to explain everything to us so we could understand.
- Námskeiðið var áhugavert og verður í minningunni.
- Framúrskarandi kennarar. Takk Arnarlax.
- I want more teaching to happen. I felt I learned more and I wanted to learn more and I really liked both teachers. If possible, I would like to have more lessons. Thank you very much.
- Þökk sé Arnarlaxi og kennurum, allt var frábært.
Í ljósi allrar umræðu um mikilvægi þess að auðvelda fólki af erlendum uppruna aðgang að íslensku máli og þar með íslensku samfélagi þá er til fyrirmyndar að fyrirtæki bjóði starfsfólki sínu að sækja íslenskunám á vinnutíma. Fræðslumiðstöðin vill þakka Arnarlaxi fyrir sérlega gott samstarf og vonar að þessir nemendur fái tækifæri til þess að halda áfram að æfa sig í íslensku bæði í vinnunni og úti í samfélaginu.