Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Dagur íslenskrar tungu

Dagur íslenskrar tungu 

  1. nóvember 2023

Á degi íslenskrar tungu er vel við hæfi að vekja athygli á íslenskukennslu fyrir fólk af erlendum uppruna sem hefur verið einn af hornsteinum í starfsemi Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða alveg frá upphafi. 

Í yfir 20 ár hefur Fræðslumiðstöðin boðið upp á íslenskunámskeið fyrir byrjendur jafnt sem lengra komna. Til að byrja með voru námskeiðin staðkennd en í seinni tíð hefur líka verið boðið upp á fjarnámskeið. Flestir ættu því að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Hin síðari ár hefur þátttaka á íslenskunámskeiðum hjá Fræðslumiðstöðinni aukist sem er gleðiefni og viðeigandi að fagna á degi íslenskrar tungu. 

Fræðslumiðstöðin hefur í gegnum árin einnig átt gott samstarf við sveitarfélög, fyrirtæki og stofnanir um íslenskukennslu fyrir íbúa og starfsfólk en þar er örugglega sóknarfæri til að gera enn betur. Starfsmenntasjóðir hafa stutt við íslenskunámskeið með endurgreiðslu á námskeiðkostnaði. Auk þess eru námskeiðin niðurgreidd af Rannís. 

Hjá Fræðslumiðstöðinni hefur átt sér stað þörf og mikilvæg þróun varðandi íslenskunámskeiðin og því má þakka framsæknu og skapandi starfsfólki sem óhrætt er að prófa nýjar leiðir. Íslenskukennarar hjá miðstöðinni hafa jafnan unnið gróskumikið starf sem er mikið lán. 

Drifkraftur þróunar er ástríða og hugsjón. Fræðslumiðstöð hefur átt í góðu samstarfi við kennara sem eru framúrskarandi og byggja á þekkingu og reynslu. Aðgengi að íslenskunámskeiðum þarf að vera gott og stöðugt og því hefur verið aukið við fjarnám til að ná til sem flestra. Sem dæmi þá eru fjarkennd námskeið hjá miðstöðinni sem sérstaklega eru sniðin að kennslu íslensku fyrir fólk frá Taílandi og eru þátttakendur víðs vegar af landinu. Þá erum við í góðu samstarfi við Háskólasetur Vestfjarða í verkefninu Gefum íslensku séns sem nýverið hlaut viðurkenninguna Evrópumerki. Það verkefni bætir við það góða starf sem unnið er á íslenskunámskeiðunum því að til þess að ná tökum á íslensku þarf að nota tungumálið. 

Að læra tungumál getur verið krefjandi viðfangsefni en á sama tíma gefandi. Fræðslumiðstöðin gaf nýverið út Íslensku málfræðihandbókina mína en bókin er verk fyrrum nemanda miðstöðvarinnar, Joönna Majewska. Útgáfan hlaut styrk frá starfsmenntasjóðunum Landsmennt, Ríkismennt og Sveitamennt. Bókin getur stutt við íslenskunám fólks af pólskum uppruna. 

Við getum öll lagt okkar að mörkum sem almannakennarar í íslensku. Leggjum áherslu á að gefa íslensku séns í samfélaginu, fyrir samfélagið. 

Fyrir hönd Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða  

Sædís María Jónatansdóttir  

Fögnum og kynnum: Íslenska málfræðihandbókin mín – Moja prodręczna gramatyka języka islandzkiego

Nýverið kom út hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða handbók um íslenska málfræði með pólskum skýringum, Íslenska málfræðihandbókin mín – Moja prodręczna gramatyka języka islandzkiego. Höfundur bókarinnar er Joanna Majewska, leikskólakennari á Flateyri. Bók sem þessi hefur ekki verið gefin út fyrr hér á landi og er því full ástæða til að fagna útgáfu hennar. Það ætlum við í Fræðslumiðstöðinni að gera fimmtudaginn 12. október n.k. kl. 17:00. Þar mun höfundur bókarinnar og aðrir sem komið hafa að útgáfunni segja stuttlega frá verkefninu. Kynningin verður í húsakynnum Fræðslumiðstöðvarinnar að Suðurgötu 12 Ísafirði og er öllum opin. Pólskumælandi fólk sem og þau sem koma að kennslu íslensku sem annars máls eru sérstaklega hvött til að mæta.

Hægt verður að kaupa bókina á staðnum en einnig er hægt að panta hana hjá Fræðslumiðstöðinni með því að senda póst á frmst.is. Eintakið kostar 4.000 kr.

Nánar um verkefnið

Markmið með bókinni Íslenska málfræðihandbókin mín – Moja prodręczna gramatyka języka islandzkiego er að auðvelda pólsku fólki, sem er að læra íslensku sem annað mál, glímuna við að skilja og tileinka sér íslensku og auðvelda þeim þar með að verða virkari þátttakendur í íslensku samfélagi. Bókin hefur að geyma yfirferð yfir helstu reglur sem einkenna íslenska málfræði, fjölda beygingardæma og orðalista. Gert er ráð fyrir að þau sem notfæri sér handbókina hafi sæmilegan skilningi á málfræðilegri uppbyggingu tungumála og bókin er því ekki við hæfi ungra skólanemenda. Eldri nemendur í grunnskóla sem eru af pólsku bergi brotnir og síðan Pólverjar á öllum aldri ættu að geta haft mikið gagn af bókinni.

Vinnan við bókina hefur í raun staðið yfir í langan tíma. Upphaflega var handbókin eingöngu ætluð til eigin nota en eftir því sem verkið vatt upp á sig varð ljóst að það gæti gagnast fleirum og því var ráðist í það verkefni að búa hana til útgáfu. Þess má geta útgáfan var styrkt af starfsmenntasjóðunum Landsmennt, Ríkismennt, og Sveitamennt.

Um höfundinn

Höfundur bókarinnar, Joanna Majewska, samdi handbókina samhliða námi sínu í íslensku. Hún flutti til Íslands árið 2006 og hóf fljótlega að sækja íslenskunámskeið á Flateyri. Í Póllandi hafði hún lokið meistaragráðu í uppeldis- og kennslufræði frá pólskum háskóla. Frá árinu 2011 hefur Joanna starfað við leikskóla. Árið 2012 fékk hún háskólanám sitt í Póllandi viðurkennt af ENIC/NARIC upplýsingastofu Íslands sem sambærilegt við meistaragráðupróf frá íslenskum háskólum. Hún stóðst íslenskupróf fyrir umsækjendur um íslenskan ríkisborgararétt árið 2014 og 2015 öðlaðist hún leyfi til nota starfsheitið framhaldsskólakennari í uppeldisfræði. Joanna hefur sótt ýmis námskeið í leikskólafræðum á síðustu árum samhliða starfi sínu við leikskólann Grænagarð á Flateyri.

Eldri færslur