Fræðslumiðstöð Vestfjarða og Menntaskólinn á Ísafirði eru að fara af stað með viðbótarnám í vélgæslu. Á vorönn 2017 verða kenndir áfangarnir kælitækni ( KÆL 122) og vélstjórn (VST 204) og á haustönn 2017 áfanginn rafmagnsfræði (RAF 103). Kennslan fer fram á staðarlotum á Ísafirði; þremur á vorönn og tveimur á haustönn. Á milli lota vinna nemendur verkefni.
Inntökuskilyrði eru að umsækjandi sé orðinn 23 ára og hafi lokið vélgæslunámskeiði. Með viðbótarnáminu öðlast viðkomandi rétt til að vera vélavörður á skipi með 750 kW vél og minni (skírteini: Vélavörður (VV)) og yfirvélstjóri á skipi með 750 kW vél og minni og 24 metrar og styttri að skráningarlengd að loknum 4ra mánaða siglingatíma sem vélavörður (skírteini: Vélavörður (VVY)).
Staður: Staðlotur á Ísafirði.
Lengd: 135 kennslustundir (90 kest. á vorönn og 45 kest. á haustönn 2017) .
Verð: 140.000 kr. Kennslubækur ekki innifaldar. Hægt er að skipta greiðslu niður á annir.
Námsmat: Nemendur þurfa að ná lágmarkseinkunn 5 til þess að ljúka hverjum áfanga. Einkunn tekur mið af verkefnaskilum, ástundun og skriflegu prófi.
Skráning og nánari upplýsingar eru hér.
- þriðjudagurinn 24. janúar 2017
-
Sigurborg Þorkelsdóttir
Fræðslumiðstöð Vestfjarða hefur á síðustu misserum unnið í auknum mæli með sveitarfélögum og fyrirtækjum að fræðslugreiningu.
Ein af ástæðum fyrir auknum áhuga á endurmenntun starfsmanna er að hvatning frá Samtökum atvinnulífsins á þessu sviði. M.a. var sett var upp vefsíða til að auðvelda fyrirtækjum að sækja um styrki til starfsmenntunar. Á vefsíðunni geta fyrirtækin sótt um styrki í marga starfsmenntasjóði í gegnum eina gátt sem kallast Áttin og er með slóðina attin.is
Sjóðirnir sem standa að Áttinni eru IÐAN fræðslusetur, Landsmennt, Menntasjóður Verkstjórasambandsins og SA, Rafiðnaðarskólinn, Starfsafl, Starfsmenntasjóður verslunar- og skrifstofufólks og Starfsmenntasjóður verslunarinnar.
Fræðslustjóri að láni
Fræðslustjóri að láni er samvinnuverkefni allra sjóðanna innan Áttarinnar. Verkefnið byggist á að lána út mannauðsráðgjafa til fyrirtækja í tiltekinn tíma, sem sérhæfður er í greiningu fræðsluþarfa og gerð fræðsluáætlana. Ráðgjafinn gerir þarfagreiningu í fyrirtækinu í samvinnu við stjórnendur og starfsfólk. Út frá greiningunni er unnin fræðslu- og símenntunaráætlun sem leggur grunn að markvissri fræðslu starfsmanna. Enginn útlagður kostnaður er hjá fyrirtækjum vegna fræðslustjórans, en þau þurfa að leggja til vinnuframlag.
MARKVISS - Markviss uppbygging starfsmanna.
Ein af þeim aðferðum sem fræðsluaðilar nota við fræðslugreiningu er svokölluð Markviss aðferðafræði. Þar er megin áhersla er lögð á að stjórnendur og aðrir starfsmenn vinni saman að þeirri uppbyggingu sem þörf er á.
Með notkun á Markviss fæst yfirlit yfir þann mannauð sem er innan fyrirtækisins og hvernig hægt er að þróa hann áfram. Til þess að mögulegt sé að mæta þörfum starfsmanna er nauðsynlegt að gera góða þarfagreiningu. Markviss býður upp á einfaldar aðferðir sem fyrirtækin geta notað og sniðið að eigin þörfum. Með aðferðafræði Markviss er tryggt að starfsmannastefna fyrirtækisins haldist í takt við aðra þróun í fyrirtækinu.
Mörg fyrirtæki hafa náð góðum árangri í uppbyggingu fræðslumála með Markviss aðferðafræðinni.
Þær stofnanir og fyrirtæki sem Fræðslumiðstöð Vestfjarða hefur starfað með við gerð fræðsluáætlana á síðustu misserum eru: Vesturbyggð, Reykhólahreppur, Bolungarvíkurkaupstaður og Íslandsaga.
Fleiri verkefni eru í farvatninu.
Hafi fyrirtæki eða stofnanir hug á að kynna sér þessi mál betur er velkomið að þau snúi sér til Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða. Starfsmaður Fræðslumiðstöðvarinnar sem einkum vinnur við fræðslugreiningar er Siguborg Þorkelsdóttir, sími 456 5066 og netfang sigurborg@frmst.is
- föstudagurinn 20. janúar 2017
-