Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Hljóðvist, skrifstofunám, franska, vefnaður, bókhald og jákvæðni!

Það er kannski ekki margt sem hljóðvist í húsum, skrifstofustörf, franska, vefnaður, bókhald og jákvæðni í lífi og starfi eiga beint sameiginlegt annað en að þetta eru allt viðfangsefni sem tekin verða fyrir á námskeiðum Fræðslumiðstöðvarinnar á næstunni.

Miðstöðin er nú að senda út blöðung í öll hús á norðanverðum Vestfjörðum þar sem kynnt eru næstu námskeið. Þar kennir ýmissa grasa eins og upptalningin hér að ofan gefur til kynna. Það ættu því flestir að geta fundið eitthvað við hæfi hvort sem það tengist því að eflast í starfi, styrkja sig sem einstaklingur eða bara löngun til þess að gera eitthvað áhugavert og skemmtilegt.

Starfsfólk Fræðslumiðstöðvarinnar vill ítreka mikilvægi þess að áhugasamir skrái sig, það er fátt leiðinlegra en að fella niður námskeið vegna ónógra skráninga en svo mæta óskráðir á auglýstum degi og grípa í tómt.

Þá má enn og aftur minna á starfsmenntasjóði stéttarfélaganna. Flest félög styrkja sitt fólk með endurgreiðslu á hluta af þátttökugjöldum námskeiða og eru allir hvattir til að kanna rétt sinn og nýta hann.

Fimm íslenskunámskeið að hefjast

Síðasta vetur var töluverð eftirspurn eftir íslenskunámskeiðum hjá Fræðslumiðstöðinni og svo virðist sem áframhald verði í því nú í haust. Næstu daga fara af stað fimm námskeið hjá miðstöðinni.

Á Ísafirði eru að hefjast tvö námskeið, annað fyrir byrjendur og hitt fyrir þá sem hafa nokkurn grunn í málinu og komnir eru vel af stað á stigi 3. Í Bolungarvík er að hefjast námskeið fyrir byrjendur og sömu leiðis á Patreksfirði. Þá verður á Patreksfirði kennt námskeið sem telst seinni hluti á fjórða stigi en það er ætlað fólki sem hefur áður lokið yfir 200 kennslustundum á íslenskunámskeiðum eða hefur kunnáttu sambærilega við það.

Það er nokkuð algengt að fólk ljúki fyrstu tveimur til þremur áföngum í íslenskunámi en láti þar staðar numið og er þetta í fyrsta skipti sem Fræðslumiðstöðin kennir seinni hluta fjórða stigs. Það er sérstaklega ánægjulegt að sjá að fólk vill halda áfram að bæta við sig en ekki hætta eftir að fyrstu skrefin hafa verið stigin. Vonandi eigum við eftir að sjá fleiri námskeið fyrir fólk sem komið er svona langt í íslenskunáminu.

Athugið að enn er hægt að skrá sig á þessi námskeið - sjá nánar undir Námskeið.

 

Eldri færslur