Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Fimm íslenskunámskeið að hefjast

Síðasta vetur var töluverð eftirspurn eftir íslenskunámskeiðum hjá Fræðslumiðstöðinni og svo virðist sem áframhald verði í því nú í haust. Næstu daga fara af stað fimm námskeið hjá miðstöðinni.

Á Ísafirði eru að hefjast tvö námskeið, annað fyrir byrjendur og hitt fyrir þá sem hafa nokkurn grunn í málinu og komnir eru vel af stað á stigi 3. Í Bolungarvík er að hefjast námskeið fyrir byrjendur og sömu leiðis á Patreksfirði. Þá verður á Patreksfirði kennt námskeið sem telst seinni hluti á fjórða stigi en það er ætlað fólki sem hefur áður lokið yfir 200 kennslustundum á íslenskunámskeiðum eða hefur kunnáttu sambærilega við það.

Það er nokkuð algengt að fólk ljúki fyrstu tveimur til þremur áföngum í íslenskunámi en láti þar staðar numið og er þetta í fyrsta skipti sem Fræðslumiðstöðin kennir seinni hluta fjórða stigs. Það er sérstaklega ánægjulegt að sjá að fólk vill halda áfram að bæta við sig en ekki hætta eftir að fyrstu skrefin hafa verið stigin. Vonandi eigum við eftir að sjá fleiri námskeið fyrir fólk sem komið er svona langt í íslenskunáminu.

Athugið að enn er hægt að skrá sig á þessi námskeið - sjá nánar undir Námskeið.

 

Námsvísir 2016-2017 kominn út!

Nú er hinn árlegi Námsvísir Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða kominn út. Það er að finna upplýsingar um öll þau námskeið sem búið er að ákveða að auglýsa þetta skólaárið en eins og ávalt munu fleiri námskeið bætast við eftir þörfum og eftirspurn og þau auglýst sérstaklega.

Í Námsvísinum kennir ýmissa grasa. Eins og venjulega skiptum við námskeiðunum niður í tungumál, tölvur, tómstundir, endur- og símenntun, réttindanám og starfstengt nám, námsleiðir Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og námskeið fyrir fólk með fötlun.

Námsvísinum er dreift í öll hús og fyrirtæki á Vestfjörðum en einnig má skoða hann hér á vefnum. Það er von Fræðslumiðstöðvarinnar að sem flestir geti fundið eitthvað við sitt hæfi og framundan sé góður námsvetur.

Eldri færslur