Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Svæðisleiðsögunám á Vestfjörðum - tækifæri til menntunar í ört vaxandi atvinnugrein

Útskrifaðir svæðisleiðsögumenn 2011
Útskrifaðir svæðisleiðsögumenn 2011

Nú í haust hefst nám í svæðisleiðsögn hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða. Námið er þrjár annir og lýkur í desember 2017. Þetta er í fjórða sinn sem námið er í boði á svæðinu og hafa þeir hópar sem hafa útskrifast verið nokkuð fjölmennir.

Þegar þátttakendur í náminu eru spurðir hvað hafi staði upp úr og hvað hafi nýst þeim best eftir námið þá nefna flestir hvað það hafi verið einstaklega skemmtilegt að kynnast fólki sem hafði sömu áhugamál, þ.e. ástríðu fyrir einstakri náttúru og sögu Vestfjarða, útiveru og ferðalögum. Enda hafa þátttakendur myndað með sér góð tengsl  sem nýtast vel í starfi og tómstundum. Raunin hefur orðið sú að velflestir sem ljúka svæðisleiðsögunámi vinna á einhver hátt við ferðaþjónustu, sem leiðsögumenn, reka eigin ferðaþjónustu eða ferðaskrifstofur, bílstjórar, í upplýsingagjöf, á gistiheimilum og svo mætti lengi telja.

Þó svo námið miði að því að búa þátttakendur undir að fylgja ferðamönnum um Vestfirði eða þjónusta þá á annan hátt þá er  það opið fyrir alla og alltaf hafa verið einhverjir þátttakendur sem eingöngu eru að láta þann draum rætast að fræðst um heimahagana og kynnast þeim enn betur þó þeir ætli ekki í ferðaþjónustu. Sem sagt námið er í hnotskurn hagnýtt, fróðlegt og skemmtilegt.

Nám í svæðisleiðsögn er víðfermt og mjög fjölbreytt. Fjallað er um jarðfræði Íslands, sögu og menningu, gróður, dýralíf, atvinnuvegi, íslenskt samfélag, bókmenntir og listir. Nemendur færðast um helstu ferðamannastaði á Vestfjörðum, ferðamannaleiðir, náttúruvernd, umhverfismál og leiðsögutækni. Fyrirlesarar og kennarar eru allir leiðsögumenn og/eða sérfróðir um einstaka málaflokka.

Það er ljóst að með auknum ferðamannastraum til Íslanda, og þar af leiðandi til Vestfjarða, er mikil þörf fyrir eflingu náms í þessum málaflokki. Ferðamálastofa, ferðaþjónar og almenningur kallar eftir faglegum vinnubrögðum og aukinni þekkingu innan greinarinnar og er svæðisleiðsögunám kjörin leið til að efla þekkingu þeirra sem starfa í þessum geira.

Hópurinn sem fer af stað í haust mun að stórum hluta stunda námið sem fjarnám í gegnum Skype for business og aðra samskiptavefi. Með því móti gefst nemendunum færi á að stunda námið nánast hvar sem er ef þeir hafa gott netsamband. Hluti námsins er hins vegar  kenndur í fimm staðlotum um helgar víðsvegar um Vestfirði. E það að margar áliti skemmtilegasti hluti námsins þar sem þátttakendur fá tækifæri til að þjálfa sig í praktísku hlutunum og ferðast um svæðið í rútu. Í námslotur er skyldumæting.

Námið er í samvinnu við Leiðsöguskólann í Kópavogi sem ber faglega ábyrgð á því. Námið er alls 23 einingar og matshæft inn í Leiðsöguskólann ef fólk hefur áhuga á að bæta við sig og ljúka leiðsögumannanámi með réttindum. Námið byggir á námskrá fyrir leiðsögunám sem gefin var út af menntamálaráðuneytinu árið 2004.

Til að hefja nám þarf umsækjandi að vera orðin 21 árs og hafa stúdentspróf eða sambærilegt nám. Umsóknarfrestur er til 5. ágúst 2016. Allar nánari upplýsingar og umsóknarblað má finna á vef Fræðslumiðstöðvar http://frmst.is/. Nokkuð kostnaðarsamt er að halda úti svona námi. Til þess að lækka námskostnað nemenda hefur Fræðslumiðstöðin fengið styrk úr Uppbyggingarsjóði Vestfjarða og frá Ferðamálasamtökum Vestfjarða og ber að þakka það.

Umsjón námsins er í höndum Sólveigar Bessu Magnúsdóttur verkefnastjóra hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða. Hún útskrifaðist sjálf sem svæðisleiðsögumaður 2011 og starfar við eigin ferðaþjónustu á sumrin.

Nýr skóli tekur til starfa

I Sundahöfn 21. júní 2016
I Sundahöfn 21. júní 2016
1 af 4

Í morgun var Sjávarútvegsskóli Ísafjarðarbæjar settur í fyrsta sinn og hóf þar með formlega göngu sina. Tuttugu nemendur verða í skólanum á þessu fyrsta starfsári. Þeir eru 14 og 15 ára gamlir og starfa í Vinnuskóla Ísafjarðarbæjar, en Sjávarútvegsskólinn er einskonar deild innan hans, svipað og leiklistarhópurinn Morrinn, sem starfaði hér í allmörg ár.

Sjávarútvegsskólinn er samstarfsverkefni Vinnuskólans, Fræðslumiðstöðvarinnar, fyrirtækja og áhugamanna um nám í sjávarútvegi. Hann er settur upp að austfirskri fyrirmynd og er hlutverk hans að kynna sjávarútveginn fyrir unga fólkinu og þá möguleika sem felast í þessari tæknivæddu atvinnugrein og í tengslum við hana.

Skólinn verður bara starfræktur í eina viku í sumar. Hann er fullsetinn, en hámark var sett við 20 þátttakendur. Þeir sem að skólanum koma eru að þreifa sig áfram og vilja því fara rólega f stað.

Í skólanum verða nemendur bæði í bóklegu og verklegu námi, sem einkum felst í að heimsækja fyrirtæki.

Nemendur halda launum sínum hjá Vinnuskólanum á námstímanum, enda er skólinn í raun deild innan hans.

Aðalkennari við Sjávarútvegsskólann er Kolrún María Elfarsdóttir sjávarútvegsfræðingur. Hún starfar hjá Hraðfrystihúsinu Gunnvöru í Hnífsdal og heldur fullum launum þar á meðan á kennslunni stendur. Önnur fyrirtæki sem að skólanum standa eru Kampi, 3X-Stál, Fjarðanet, Muurikka, Kerecis, Aldan ÍS-47, Íslandssaga og Klofningur. Að kennslunni koma einnig Hafró og Matís og Guðbjörn Páll Sölvason hjá Fræðslumiðstöðinni.

Upphaf skólans var fyrirspurn til Fræðslumiðstöðvarinnar hvort hún gæti ekki komið upp sjávarútvegsskóla að austfirskri fyrirmynd. Við hjá miðstöðinni tókum vel í þessa hugmynd og ákváðum að vinna eitthvað í henni þegar vel stæði á hjá okkur. Það dróst svo að finna þennan tíma þegar vel stæði á og því gerðist lítið í málinu. Í júlí 2015 höfðu svo þeir Anton Helgi Guðjónsson og Gauti Geirsson samband við miðstöðina og voru þá með hugmynd um svona sjávarútvegsskóla. Höfðu þeir haft samband við fyrirtæki sem öll höfðu tekið vel í málið. Var þeim félögum tekið opnum örmum og fannst okkur hjá Fræðslumiðstöðinni að þeir hefðu verið sendir okkur af himnum ofan. Var Þá strax farið að vinna í málinu og m.a. haft samband við Vinnuskóla Ísafjarðarbæjar, sem tók vel í málið. Guðbjörn Páll Sölvason (Bubbi Sölva) fór í málið fyrir Fræðslumiðstöðina og Esther Ósk Arnórsdóttir fyrir Vinnuskólann. Þau, ásamt þeim Antoni Helga og Gauta, unnu svo að málinu í vetur. Bubbi, Esther og Anton Helgi voru svo skipuð í stýrihóp yfir verkefninu.

Nemendur í Sjávarútvegsskólanum eru ekki í markhópi Fræðslumiðstöðvarinnar. Okkur í Fræðslumiðstöðinni fannst þetta þó svo góð hugmynd til að styrkja undirstöðuatvinnuveginn okkar og um leið byggðina, að við vildum leggja okkar af mörkum. Miðstöðin leggur fram húsnæði, umsýslu og reikningsbókhald til verkefnisins.

Eldri færslur