Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Nýr skóli tekur til starfa

I Sundahöfn 21. júní 2016
I Sundahöfn 21. júní 2016
1 af 4

Í morgun var Sjávarútvegsskóli Ísafjarðarbæjar settur í fyrsta sinn og hóf þar með formlega göngu sina. Tuttugu nemendur verða í skólanum á þessu fyrsta starfsári. Þeir eru 14 og 15 ára gamlir og starfa í Vinnuskóla Ísafjarðarbæjar, en Sjávarútvegsskólinn er einskonar deild innan hans, svipað og leiklistarhópurinn Morrinn, sem starfaði hér í allmörg ár.

Sjávarútvegsskólinn er samstarfsverkefni Vinnuskólans, Fræðslumiðstöðvarinnar, fyrirtækja og áhugamanna um nám í sjávarútvegi. Hann er settur upp að austfirskri fyrirmynd og er hlutverk hans að kynna sjávarútveginn fyrir unga fólkinu og þá möguleika sem felast í þessari tæknivæddu atvinnugrein og í tengslum við hana.

Skólinn verður bara starfræktur í eina viku í sumar. Hann er fullsetinn, en hámark var sett við 20 þátttakendur. Þeir sem að skólanum koma eru að þreifa sig áfram og vilja því fara rólega f stað.

Í skólanum verða nemendur bæði í bóklegu og verklegu námi, sem einkum felst í að heimsækja fyrirtæki.

Nemendur halda launum sínum hjá Vinnuskólanum á námstímanum, enda er skólinn í raun deild innan hans.

Aðalkennari við Sjávarútvegsskólann er Kolrún María Elfarsdóttir sjávarútvegsfræðingur. Hún starfar hjá Hraðfrystihúsinu Gunnvöru í Hnífsdal og heldur fullum launum þar á meðan á kennslunni stendur. Önnur fyrirtæki sem að skólanum standa eru Kampi, 3X-Stál, Fjarðanet, Muurikka, Kerecis, Aldan ÍS-47, Íslandssaga og Klofningur. Að kennslunni koma einnig Hafró og Matís og Guðbjörn Páll Sölvason hjá Fræðslumiðstöðinni.

Upphaf skólans var fyrirspurn til Fræðslumiðstöðvarinnar hvort hún gæti ekki komið upp sjávarútvegsskóla að austfirskri fyrirmynd. Við hjá miðstöðinni tókum vel í þessa hugmynd og ákváðum að vinna eitthvað í henni þegar vel stæði á hjá okkur. Það dróst svo að finna þennan tíma þegar vel stæði á og því gerðist lítið í málinu. Í júlí 2015 höfðu svo þeir Anton Helgi Guðjónsson og Gauti Geirsson samband við miðstöðina og voru þá með hugmynd um svona sjávarútvegsskóla. Höfðu þeir haft samband við fyrirtæki sem öll höfðu tekið vel í málið. Var þeim félögum tekið opnum örmum og fannst okkur hjá Fræðslumiðstöðinni að þeir hefðu verið sendir okkur af himnum ofan. Var Þá strax farið að vinna í málinu og m.a. haft samband við Vinnuskóla Ísafjarðarbæjar, sem tók vel í málið. Guðbjörn Páll Sölvason (Bubbi Sölva) fór í málið fyrir Fræðslumiðstöðina og Esther Ósk Arnórsdóttir fyrir Vinnuskólann. Þau, ásamt þeim Antoni Helga og Gauta, unnu svo að málinu í vetur. Bubbi, Esther og Anton Helgi voru svo skipuð í stýrihóp yfir verkefninu.

Nemendur í Sjávarútvegsskólanum eru ekki í markhópi Fræðslumiðstöðvarinnar. Okkur í Fræðslumiðstöðinni fannst þetta þó svo góð hugmynd til að styrkja undirstöðuatvinnuveginn okkar og um leið byggðina, að við vildum leggja okkar af mörkum. Miðstöðin leggur fram húsnæði, umsýslu og reikningsbókhald til verkefnisins.

Hvað væri áhugavert að læra? Eða viltu kannski kenna?

Frá námskeiði í vélgæslu.
Frá námskeiði í vélgæslu.
1 af 2

Nú er námskeiðum þessa skólaárs um það bil lokið hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða. Þá tekur við undirbúningur fyrir næsta vetur sem felst að stórum hluta í því að ákveða hvað á að bjóða upp á.

Eins og alltaf erum við hjá Fræðslumiðstöðinni opin fyrir öllum góðum hugmyndum hvað varðar námskeið eða námsleiðir. Við viljum því hvetja fólk til að láta okkur vita hvers konar námskeið það vill sjá hjá okkur næsta vetur.

Einnig viljum við gjarnan heyra frá fólki sem langar að deila þekkingu sinni og kunnáttu með öðrum og hugsanlega kenna á námskeiðum hjá Fræðslumiðstöðinni. Þetta gætu verið námskeið í tungumálum, tölvum, samfélagsmiðlum, ferðamálum, tómstundum, persónulegri færni, vinnumarkaðstengd námskeið og svo framvegis.

Fræðslumiðstöð Vestfjarða er ekki með fastráðna kennara heldur aðeins stundakennara. Því stærri sem kennarahópurinn er, því fjölbreyttari námskeið getum við boðið uppá.

Hægt er að koma ábendingum til okkar með tölvupósti frmst@frmst.is eða í síma 456 5025. Öllum ábendingum er vel tekið.  

Eldri færslur