Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Útskriftir hjá Fræðslumiðstöðinni

Útskriftarnemendur í smáskipanámi
Útskriftarnemendur í smáskipanámi
1 af 2

Vorin eru uppskerutíminn í skólunum. Þá njóta nemendur og kennarar afrakstur erfiðis og strits liðinna mánaða. Þá er tími til að fagna og veita sér eitthvað umfram hið venjulega.

Hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða er nú hver hópurinn á fætur öðrum að ljúka námi. Á þriðjudaginn var haldið uppá lok Grunnmenntaskólans, þar sem 9 nemendur luku námi og í gær var haldið upp á lok smáskipanáms, þar sem 10 luku námi. Í næstu viku lýkur svo tveimur síðustu námskeiðunum í íslensku fyrir útlendinga á þessum vetri. Annað þeirra er á Ísafirði og hitt á Bíldudal.

Það hefur verið góður gangur á starfseminni hjá Fræðslumiðstöðinni í vetur. Námsskeið hafa t.d. verið mun fleiri en í fyrra. Sérstaklega hafa íslenskunámskeið fyrir útlendinga gengið vel. Í nokkur ár dróst íslenskukennslan saman ár frá ári, en hefur verið vaxandi síðast liðin 2 ár.

Meðfylgjandi myndir eru frá lokahófum í Grunnmenntaskólanum og smáskipanáminu á Ísafirði.

Hvernig viljum við hafa heilsuna?

Dögg Árnadóttir.
Dögg Árnadóttir.

Fimmtudaginn 12. maí n.k. verður fimmta erindið í fyrirlestrarröðinni Þriðja skeiðið – réttindi og tækifæri. Þá mun Dögg Árnadóttir lýðheilsufræðingur fjalla um lýðheilsu undir yfirskriftinni Hvernig viljum við hafa heilsuna? Dögg hefur þetta að segja um erindið:

Heilsa okkar er í þróun alla ævi, henni ýmist hrakar, hún viðhelst eða eflist. Fjölmargt hefur áhrif á það hvernig þróunin er hjá hverjum og einum, til dæmis erfðir, reynsla, aðstæður og umhverfi, en lykilþáttur er val einstaklingsins. Mest áhrif hefur það hvernig einstaklingurinn velur að gera hverju sinni og hvernig hann velur að takast á við það sem að höndum ber. Einstaklingurinn er því sá sem ber mesta ábyrgð á eigin heilsu.

 

Með okkar vali og gjörðum höfum við líka áhrif á heilsu annarra, umhverfið og fleira. Þegar kemur að heilsu er ábyrgð okkar því líka samfélagsleg.

 

Ef vilji er fyrir hendi getur hver og einn stuðlað að heilsu, vellíðan og blómstrun á einstaklings- og samfélagsvísu. Til þess að svo megi verða þarf margt að koma til en á fyrirlestri sem þessum getum við hjálpast að við að komast skrefi nær því að takast það.

Fyrirlestraröðinni Þriðja skeiðið - réttindi og tækifæri er ætlað að kynna fólki sitthvað sem gott er að huga að fyrir framtíðina þegar komið er á miðjan aldur. Hún er því einkum ætluð fólki sem komið er á miðjan aldur, en allir eru velkomnir.

Erindið verður hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða að Suðurgötu 12 á Ísafirði, en verði þátttakendur á Hólmavík eða Patreksfirði verður notaður fjarfundabúnaður til að tengja fólk saman.

Tími: Fimmtudagurinn 12. maí kl. 17-19.

Verð: 1.000 kr. á mann.

Eldri færslur