Raunfærnimat - almenn starfshæfni og grunnleikni
Fræðslumiðstöð Vestfjarða býður nú í fyrsta skipti upp á námskeið og raunfærnimat í almennri starfshæfni. Almenna starfshæfni má flokka í persónulega hæfni og samstarfshæfni. Hún nýtist bæði á vinnustað og í samfélaginu en á mismunandi hátt eftir aðstæðum og störfum.
Með almennri starfshæfni er átt við þá hæfni (leikni, viðhorf og breytni) sem einstaklingur þarf að búa yfir eða tileinka sér til þess að taka á virkan hátt þátt í samfélaginu, vera á vinnumarkaði, þróast í starfi og geta tekið á sig meira krefjandi störf. Horft er á færni sem er almenns eðlis, frekar en miðuð við sérstök störf. Með því að skoða og kortleggja almenna starfshæfni er hægt draga fram styrkleika, fá tækifæri til að styrkja þá þætti sem upp á vantar og bera styrkleika saman við kröfur í ákveðnum störfum.
Námskeiðið og raunfærnimatið í kjölfarið hentar vel fólki sem er á krossgötum, er leitandi eða er að velta fyrir sér nýju starfi. Hentar einnig fólki í starfsendurhæfingu sem t.d. hefur orðið fyrir kulnun, því þátttakendur læra inn á eigin styrkleika og veikleika og fá nýja sýn á sjálfa sig.
Fyrirkomulagið er þannig að byrjað er á viðtali við náms- og starfsráðgjafa. Svo taka við fimm vinnustofur sem eru að hluta rafrænar og að hluta til hópverkefni. Í vinnustofum gera þátttakendur eigin færnimöppu sem hjálpar til við að rifja upp hvað þeir hafa gert í lífi og starfi og farið er í gegnum matslista. Fyrir hin ýmsu störf eru að auki aðrar hæfnikörfur sem eru sértækar. Að vinnustofunum loknum tekur við raunfærnimat þar sem matsaðili fer í gegnum skimunarlista með hverjum þátttakanda í einkaviðtali og hjálpar viðkomandi að staðsetja færni sína. Í lokin er svo aftur viðtal við náms- og starfsráðgjafa þar sem farið er yfir næstu skref í starfsþróun, skoðað hvers konar störf viðkomandi vill vinna eða ákveða á hvaða sviðum nám eða þjálfun ætti að vera. Þá fá þátttakendur aðstoðað við að skrifa ferilskrá ef t.d. er verið að sækja um starf.
Raunfærnimatið er ætlað fólki sem er eldra en 23 ára og er frítt ef fólk hefur ekki lokið formlegu framhaldsskólanámi.
Nánari upplýsingar veita Helga Konráðsdóttir, náms- og starfsráðgjafi, helga@frmst.is og Sigurborg Þorkelsdóttir, markþjálfi, sigurborg@frmst.is.