Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Fræðslumiðstöð Vestfjarða á tímum samkomubanns

Þótt Fræðslumiðstöð Vestfjarða hafi í gegnum tíðina boðið upp á einstakar námsleiðir og námskeið í fjarkennslu hefur mikill meirihluti alls náms byggst á því að nemendur mæta á tiltekinn stað allir saman. Þegar samkomubann var sett á 16. mars s.l. kom því óhjákvæmilega hökt í starfsemi miðstöðvarinnar þar sem samkomubannið tók af staðkennslu hópa. Til þess að ljúka verkefnum sem þegar voru farin af stað var sett í annan gír og námið fært yfir í stafræna miðla eftir því sem mögulegt er.

 

Vel hefur tekist til við að aðlaga starfsemina breyttum aðstæðum. Þegar samkomubannið tók gildi voru fjögur íslenskunámskeið í gangi og tvær lengri námsleiðir, Grunnmenntaskóli og Íslensk menning og samfélag. Þessu námi var umbreytt á ótrúlega skömmum tíma og er nú kennt í gegnum fjarfunda búnaðinn Zoom með góðum árangri. Einnig var í gangi viðbótarnám í vélgæslu sem var að hluta til fjarkennt fyrir en er nú alfarið komið í fjarkennslu fyrir utan verklega kennslu sem verður þegar samkomubanni lýkur.

 

Það er hins vegar ekki nóg að ljúka bara því sem byrjað var á, Fræðslumiðstöðin er staðráðin í því að halda áfram að bjóða Vestfirðingum að sækja fræðslu þótt húsnæði miðstöðvarinnar sé lokað og nánast allir starfsmenn að vinna heiman frá sér. Undir lok mars hófst Grunnnámskeið fyrir fiskvinnslufólk sem er fjarkennt að nánast öllu leyti en námsþáttur um skyndihjálp þarf að bíða þar til samkomubanni verður aflétt. Í samstarfi við starfsmenntasjóði og Vestfjarðastofu hefur miðstöðin nú skipulagt nokkur stutt vefnámskeið þar sem lögð er áhersla á að næra líkama og sál, námskeið sem minnka streitu og veita innblástur. Fleiri námskeið eru á teikniborðinu og verða þau auglýst jafn óðum bæði á vef miðstöðvarinnar og á Facebook.

 

Stafrænir miðlar hafa einnig nýst til að bjóða áfram upp á náms- og starfsráðgjöf og sama á við um raunfærnimat. Þá hafa fyrirtæki og stofnanir leitað til Fræðslumiðstöðvarinnar um aðstoð við að bjóða starfsfólki sínu upp á fræðslu á þessum skrítnu tímum þar sem hefðbundin starfsemi hjá mörgum hefur farið úr skorðum. Miðstöðin tekur vel í öll slík erindi og er tilbúin að hjálpa til við að finna lausnir. Hafið endilega samband í gegnum síma eða tölvupóst: 456-5025 og frmst@frmst.is. Ekki koma :)

Landsmennt veitir fulla fjármögnun námskeiða

Nú er lag fyrir starfsfólk og atvinnurekendur að nýta sér tækifæri til endur- og símenntunar. Það er ánægjulegt að segja frá því að fram til 31. ágúst n.k. getur það launafólk sem á aðild að fræðslusjóðunum Landsmennt, Sveitamennt og Starfsmennt í gegnum VerkVest og Verkalýðs- og sjómannafélagi Bolungarvíkur sótt fjarkennd námskeið sér að kostnaðarlausu. Einnig hafa reglur varðandi námskeið sem ekki eru fjarkennd verið rýmkaðar og gildir það líka til 31. ágúst. Þetta kom fram í fréttatilkynningu frá Landsmennt sem hér fer á eftir (en það sama gildir um Sveitamennt og Ríkismennt).

Landsmennt fræðslusjóður Samtaka atvinnulífsins og verkafólks á landsbyggðinni býður einstaklingum og fyrirtækum að sækja námskeið þeim að kostnaðarlausu.

Í ljósi aðstæðna í íslensku samfélagi hefur stjórn Landsmenntar fræðslusjóðs ákveðið bjóða einstaklingum og fyrirtækjum uppá þann valkost að sækja námskeið á netinu eða í fjarkennslu þeim að kostnaðarlausu.

Einnig mun sjóðurinn rýmka úthlutunarreglur sjóðsins sem taka til námskeiða sem ekki eru rafræn eða í fjarkennslu.  Stofnað verður til átaks í stafrænni/rafrænni fræðslu innan atvinnulífsins í samstarfi við fræðsluaðila og fyrirtæki.

Átakið  gildir frá  15.mars til og með 31.ágúst 2020 og gildir gagnvart námi/námskeiðum sem haldin eru innan þessa sama tímaramma. Þessi tímarammi verður endurskoðaður ef tilefni verður til.

Nánari útfærsla á átaksverkefninu:  Gerðir verða samningar við fræðsluaðila sem bjóða upp á vefnám/fjarnám þar sem fyrirtækjum og einstaklingum er boðin þátttaka í námi/námskeiðum þeim að kostnaðarlausu. Þessir samningar gilda einnig tímabundið og gagnvart því námi/námskeiðum sem fræðsluaðilar bjóða upp á innan þessa tímaramma það er frá 15. mars til og með 31. ágúst 2020

Um leið og Landsmennt hvetur stjórnendur fyrirtækja til þess að sinna sí-og endurmenntun starfsmanna sinna, vill stjórnin koma því á framfæri að tekið verði á móti öllum góðum hugmyndum að fræðslu sem kynnu að nýtast og falla vel að úthlutunarreglum sjóðsins.

Breytingar á úthlutunarreglum eru eftirfarandi:

  • Endurgreiðslur til fyrirtækja vegna kostnaðar við námskeiðahald, miðað við núverandi reglur, verði hækkaðar úr allt að 75% í allt að 90% af styrkhæfum heildarkostnaði. Gildistími verði frá 15. mars til og með 31. ágúst 2020.
  • Hámarksupphæð einstaklingsstyrkja verður áfram kr. 130.000 á ári miðað við núverandi reglur. Hlutfalli endurgreiðslu verði hins vegar breytt og verði 90% í stað 75% af kostnaði við námið. Gildistími verði frá 15. mars til og með 31. ágúst 2020.
  • Tómstundstyrkir sem nú eru 75% en að hámarki kr. 30.000 á ári verði í sama hámarki og hefðbundnir styrkir, það er kr. 130.000 á ári. Hlutfall endurgreiðslunnar verði sömuleiðis 90% af viðurkenndum kostnaði við námið. Gildistími verði frá 15. mars  til og með 31. ágúst 2020.

Nánari upplýsingar veitir Kristín Njálsdóttir, framkvæmdastjóri Landsmenntar í síma 863 6480 eða á tölvupósti, kristin@landsmennt.is

Eldri færslur