Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Margt í gangi næstu vikurnar

Næstu vikur verður ýmislegt í boði hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða sem getur nýst fólki bæði í leik og starfi. Fjögur námskeið eru sérstaklega ætluð fólki af erlendum uppruna. Mánudaginn 24. febrúar verður fræðsla fyrir Pólverja um skattamál á Íslandi og í byrjun mars hefjast þrjú íslenskunámskeið fyrir fólk með mis mikla kunnáttu í íslensku, íslenska 3a hefst 2. mars, íslenska 2b hefst 3. mars og íslenska 1b hefst 11. mars.

Helena Jónsdóttir sálfræðingur verður með tvö námskeið hjá Fræðslumiðstöðinni á næstu vikum. Þann 26. febrúar verður stutt námskeið sem kallast Þorðu að vera bara meðal – áskorun fyrir fullkomnunarsinna. Það eru alveg örugglega margir sem tengja við þetta viðfangsefni og geta haft gagn af. Miðvikdaginn 4. mars hefst svo námskeið um öryggi í samskiptum þar sem byggt verður á aðferðafræði hugrænnar atferlismeðferðar.

Dagana 12. og 13. mars verður Ingibjörg Gísladóttir ráðgjafi með tvö námskeið, annars vegar um skýra og markvissa innri upplýsingamiðlun og hins vegar um fjölbeyttari og virkari fundir. Bæði þessi námskeið eru án efa mjög gagnleg fyrir marga í atvinnulífinu en einnig fyrir fólk sem starfar á virkan hátt í félagasamtökum. Á mbl.is má sjá viðtal við Ingibjörgu um fundnámskeiðið.

Tvö námskeið eru á dagskrá sem snerta mat á einhvern hátt. Þann 5. mars verður Helga Konráðsdóttir hússtjórnarkennari með námskeið um súrdeigsbakstur. Nokkur slík hafa verið haldin og hafa þau notið vinsælda. Í lok mars er svo matreiðslunámskeið sem ber hið frumlega heiti Hamfarahlýnun í hádegismat. Þar ætlar Dóra Svavarsdóttir matreiðslumeistari hjá Culina að fjalla um mat í samhengi við loftslagsmál og þátttakendur elda saman nokkra rétti sem eru í sátt við umhverfið.

Loks má nefna að um mánaðamótin mars-apríl verður í samvinnu við Rauða krossinn haldið 12 klukkustunda skyndihjálparnámskeið. Námskeið af þessari lengd uppfyllir kröfur sem gerðar eru til þess að fá námið metið til eininga í flestum framhaldsskólum. Nemendum sem þurfa skyndihjálparþekkingu sem hluta af starfsréttindum eða námi er bent á að kynna sér þetta sérstaklega.

Íslenskunámskeiðin að fara af stað

Fyrstu íslenskunámskeið þessa árs erum komin á dagskrá og er búið að auglýsa 3 námskeið á Ísafirði.

Mánudaginn 20. janúar hefst Íslenska 4a en það er námskeið fyrir fólk sem hefur töluvert góða undirstöðu í málinu. Það er ekki oft sem Fræðslumiðstöðin hefur verið með námskeið fyrir fólk sem er svona langt komið í íslensku en nú virðist sem náist í hóp, sem er mjög ánægjulegt. Kennari á námskeiðinu er Emil Ingi Emilsson og verður kennt mánudaga og fimmtudaga kl. 17:30-19:30.

Miðvikudaginn 22. janúar er fyrirhugað að fara af stað með námskeiðið Íslenska 1a. Það námskeið er ætlað byrjendum eða þeim sem hafa mjög lítinn grunn í íslensku. Kennari er Sigríður Ásgeirsdóttir og verður kennt á mánudögum og miðvikudögum kl. 17:30-19:30.

Fimmtudaginn 23. janúar er Íslenska 2a á dagskrá. Námskeiðið er ætlað þeim sem hafa dálítinn grunn í málinu, hafa t.d. lokið 60 kennslustundum á stigi 1. Kennari er Elísabet Guðmundsdóttir og verður kennt á þriðjudögum og fimmtudögum kl. 17:30-19:30.

Verið er að skoða með að koma af stað námskeiðum á fleiri stöðum á Vestfjörðum og verður það auglýst fljótlega.

Vakin er athygli á því að starfsfólk hjá ríki og sveitarfélögum sem eru í VerkVest eða Verkalýðs- og sjómannafélagi Bolungarvíkur geta sótt íslenskunámskeið sér að kostnaðarlausu þar sem starfsmenntasjóðir þeirra greiða námskeiðin að fullu. Aðrir starfsmenntasjóðir endurgreiða aðildarfélögum sínum stóran hluta þátttökugjalda. Eins og alltaf vill Fræðslumiðstöðin því hvetja fólk til þess að kanna möguleika á styrkjum til náms.

Eldri færslur