Síðasta íslenskunámskeiði ársins 2019 lokið. Nemendurnir tóku sig saman og buðu upp á veitingar.
Vel hefur gengið með námskeið í íslensku fyrir útlendinga hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða á þessu ári sem senn er að líða. Alls voru haldin 28 námskeið hjá miðstöðinni, flest á Ísafirði en einnig á Hólmavík og Drangsnesi, Patreksfirði, Tálknafirði og Bíldudal, Bolungarvík, Þingeyri og Suðureyri auk nokkurra fjarkenndra námskeiða. Fræðslumiðstöðin vill þakka nemendum fyrir góða ástundun og einnig fyrirtækjum á svæðinu fyrir að hvetja sitt fólk til þess að sækja námskeið. Íslenskunámskeiðin byrja aftur í janúar. Vonandi verða Vestfirðingar sem eiga annað móðurmál en íslensku jafn duglegir að sækja nám á nýju ári því íslenskukunnátta er jú einn af mikilvægum þáttum þess að geta tekið virkan þátt í samfélaginu.
Bestu jólakveðjur.
Kennarar og starfsfólk Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða.
- þriðjudagurinn 10. desember 2019
- Dagný Sveinbjörnsdóttir
Eyþór Eðvarðsson.
Einn af vaxandi þáttum í starfsemi Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða er samvinna við fyrirtæki og stofnanir um námskeiðahald. Námskeiðin eru af ýmsu tagi en markmiðið er alltaf að efla og styrkja starfsfólk á einhvern hátt, faglega eða persónulega.
Dæmi um eitt slíkt námskeið var þriðjudaginn 3. desember þegar starfsfólks Klofnings á Suðureyri sótti tvö námskeið, annars vegar um samstarf og samvinnu á vinnustað sem kallaðist því skemmtilega nafni Hamingja, himnaríki, helvíti og hins vegar námskeið um átthagafræði og sögu Suðureyrar. Klofningur bauð elstu börnunum í Grunnskólanum á Suðureyri að sækja það síðara sem hluta af samfélagsverkefni enda var það liður í að efla almennri vitund og vitneskju um staðinn.
Fyrr á árinu vann Fræðslumiðstöðin með Klofningi að gerð fræðsluáætlunar fyrir allt starfsfólk fyrirtækisins og voru þessi námskeið meðal þess sem kom út úr þeirri vinnu. Leiðbeinandi á báðum námskeiðunum var Súgfirðingurinn Eyþór Eðvarðsson, vinnusálfræðingur hjá Þekkingarmiðlun.
- miðvikudagurinn 4. desember 2019
- Dagný Sveinbjörnsdóttir