Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Geðheilbrigði frá mörgum sjónarhornum – nýtt námskeið

Guðlaug M. Júlíusdóttir.
Guðlaug M. Júlíusdóttir.

Umræða um geðheilbrigði og mikilvægi þess hefur aukist á síðustu misserum og málefnið ekki lengur eins mikið feimnismál og áður var.  Fræðslumiðstöð Vestfjarða vill leggja sitt lóð á vogarskálarnar í þessu efni og fékk Guðlaugu M. Júlíusdóttur, sérfræðing í félagsráðgjöf á heilbrigðissviði til þess að setja upp námskeið á þessu sviði.

Geðheilbrigði frá mörgum sjónarhornum er nýtt námskeið sem fyrirhugað er að hefjist fimmtudaginn 28. janúar n.k. Námskeið ætlað öllum sem vilja vita hvaða þættir hafa áhrif á geðheilsuna okkar. Þar verður meðal annars fjallað um geðheilsu út frá líkamlegum og félagslegum þáttum en einnig út frá lífskeiðum manneskjunnar, meðgöngu/fæðingu, bernsku, unglingsárum, fullorðinsárum og efri árum. Þá verða geðsjúkdómarnir skoðaðir út frá lífskeiðum, hvaða sjúkdómar er algengast að komi upp á hvaða aldri, hvaða geðrænu erfiðleika er hægt að rekja til taugafræðilegra þátta, erfðaþátta og félagslegra þátta. Hvað þarf að vita til að rækta góða geðheilsu og viðhalda henni. Markmið námskeiðsins er að skilningur þátttakenda aukist á geðheilbrigði í sinni víðustu mynd.

Námskeiðið verður kennt hjá Fræðslumiðstöðinni, Suðurgötu 12, Ísafirði á fimmtudögum kl. 18-20:40 í fjögur skipti alls. Þátttökugjald eru 19.900 kr. Vakin er athygli á því að oft á tíðum er hægt að sækja um endurgreiðslu hluta þátttökugjalda í endurmenntunarsjóði stéttarfélaga.

Smáskipanám hefst 19. janúar

Í mörg ár hefur eitt af fyrstu námskeiðum ársins hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða verið Smáskipanám. Í ár verður ekki brugðið út af vananum því fyrirhugað er að hefja Smáskipanámið þriðjudaginn 19. janúar.

Smáskipanámið hefur alltaf notið nokkurra vinsælda enda hagnýtt nám sem getur gefið atvinnuréttindi. Smáskipanámið kemur í stað þess sem áður var nefnt 30rl réttindanám (pungapróf) og miðast atvinnuskírteinin nú við lengd skipa í stað brúttórúmlestatölu áður. Réttindin miðast skv. því við skip 12 metrar og styttri að skráningarlengd, m.v. að hafa lokið 12 mánaða siglingatíma skv. reglugerð nr. 393/2008. Námið er kennt með faglegri ábyrgð Skipstjórnarskóla Tækniskólans. 

Námið samanstendur af nokkrum námsþáttum og þarf að ljúka þremur þeirra með skriflegu prófi.

Námið hefst 19. janúar 2016 og lýkur í apríl. Kennt verður þriðjudaga og fimmtudaga kl. 20:15-22:15 og einhverja laugardaga kl. 9:00-12:00.

Kennar er Guðbjörn Páll Sölvason, umsjónarmaður sjódeildar hjá Fræðslumiðstöðinni og margreyndur á þessu sviði.

Þátttökugjald er 139.900 kr. Vakin er athygli á því að oft er hægt að sækja um styrk í endurmenntunarsjóði stéttarfélaga til endurgreiðslu á hluta námskeiðsgjalds.

Nánari upplýsingar og skráning er hér á vefnum eða í síma 456 5025.

Þess má að lokum geta að nú þegar eru tveir hópar í Smáskipanámi hjá Fræðslumiðstöðinni, annars vegar á Hólmavík og hins vegar nemendur í 10. bekk Grunnskólans á Ísafirði. Þá er fyrirhugað er að bjóða upp á Smáskipanám á Bíldudal síðar í vetur.

Eldri færslur