Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Tvö námskeið í samvinnu við Rauða krossinn

Fræðslumiðstöðin á í nánu og góðu samstarfi við Rauða krossinn um námskeiðahald. Nú um miðjan mars verða tvö námskeið á Ísafirði á vegum þessara aðila, námskeið sem geta gagnast flestum. 

Þriðjudaginn 15. mars verður námskeiðið Sálrænn stuðningur. Þar fræðast þátttakendur um gildi sálræns stuðnings í aðstæðum sem geta valdið áföllum, læra að gera sér betur grein fyrir eðlilegum viðbrögðum fólks sem lendir í sársaukafullum aðstæðum og hvernig hægt er að veita stuðning og umhyggju. Meðal viðfangsefna eru mismunandi tegundir áfalla, áhrif alvarlegra atvika á einstaklinginn, sálræn skyndihjálp, stuðningur við úrvinnslu alvarlegs atviks og sorg og sorgarferli.   Kennarar á námskeiðinu eru Auður Ólafsdóttir og Harpa Guðmundsdóttir. Þetta námskeið er í boði Rauða krossins og þátttakendum að kostnaðarlausu.

Miðvikudaginn 16. mars hefst tveggja kvölda námskeið í almennri skyndihjálp. Námskeiðið er ætlað öllum þeim sem vilja læra skyndihjálp og endurlífgun og öðlast öryggi, færni og þekkingu í að veita nærstöddum aðstoð í bráðatilfellum með því að beita á öruggan hátt einföldum aðferðum í skyndihjálp. Kennari á námskeiðinu er Gunnlaugur I. Grétarsson. Námskeiðið kostar 9.500 kr. Vakin er athygli á því að endurmenntunarsjóðir stéttarfélaga endurgreiða yfirleitt hluta af námskeiðsgjöldum gegn framvísun kvittunar.

Tekið er við skráningum á námskeiðin hér á vef Fræðslumiðstöðvarinnar og í síma 456 5025.

Góður gangur íslenskukennslu – þrjú námskeið að byrja

Mjög góður gangur hefur verið í íslenskukennslu fyrir útlendinga hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða fyrstu vikur ársins 2016.

Íslenskunámskeiðin eru kennd samkvæmt námsskrá frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Þeim er skipt í nokkur stig og miðað við að til þess að ljúka hverju stigi þurfi 60 kennslustundir. Fræðslumiðstöð Vestfjarða hefur farið þá leið að skipta hverju stigi á tvö námskeið til þess að hvert námskeið sé ekki eins langt. Reynslan hefur kennt okkur að fólki vex oft í augum að fara á langt námskeið en finnst minna mál að taka tvö styttri.  

Nú er í fyrsta skipti í langan tíma verið að kenna námskeið á stigi 4 og er það á Patreksfirði.  Þar hefur gengið vel með íslenskunámskeið síðustu ár og hefur það skilað nemendum svona langt. Á Patreksfirði er einnig í gangi námskeið á stigi 1 ætlað þeim sem komnir eru stutt á veg.  Á Bíldudal hefur einnig verið íslenskukennsla undanfarin misseri og þar er hópur sem brátt mun ljúka seinna námskeiði á stigi tvö. Á Ísafirði er nýlokið tveimur námskeiðum sem bæði voru á stigi 2 og eitt námskeið á stigi þrjú stendur nú yfir.

Í næstu viku (mánaðamótin febrúar/mars) er fyrirhugað að hefja þrjú ný námskeið, Íslensku 1a sem ætlað er byrjendum eða þeim sem eru komnir stutt á veg í málinu, Íslensku 2b fyrir þá sem hafa áður lokið 90 kennslustundum í íslensku eða hafa sambærilega kunnáttu og svo Íslensku 3a fyrir þá sem lokið hafa fyrstu tveimur stigunum eða hafa samsvarandi kunnáttu.

Það er enn hægt að skrá sig á þessi væntanlegu námskeið og um að gera að hvetja alla þá sem gætu haft gagn af til þess að skrá sig. Nánari upplýsingar má finna hér á síðunni undir Námskeið og einnig í gegnum síma 456 5025.

Eldri færslur