Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Að umgangast blinda og sjónskerta – fjölmennur fyrirlestur

1 af 2

Mánudaginn 22. september hélt Brynja Arthúrsdóttir, erindi hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða undir heitinu Að umgangast blinda og sjónskerta. Brynja er kynningarfulltrúi Blindrafélagsins og þekkir af eigin raun að vera alsjáandi, sjónskert og alblind.

Í erindi sínu rakti Brynja helstu ástæður sjónmissis, helstu erfiðleika við sjónmissi og hvernig best sé að umgangast og aðstoða sjónskerta og blinda og hvað beri að varast. Brynja sýnd stutta kvikmynd með Radíusbræðrum þar sem sýnt var með áhrifaríkum hætti hvernig ætti og hvernig ætti ekki að umgangast blinda og sjónskerta. Það á t.d. hvorki að draga hina sjónskertu á eftir sér að ýtta þeim á undan sér eins og hjólbörum. Þá sýndi Brynja nokkur hjálpartæki fyrir blinda og sjónskerta og leyfði fólki að prófa hermigleraugu, sem sýna mismunandi sjónskerðingar og grímur, sem fólk gat sett upp til að líkja eftir blindu. Reyndi fólk að ganga um húsið með grímurnar eitt sér eða leitt af öðrum.

 Um 40 manns sótti fyrirlesturinn og voru þátttakendur sammála um að hann hafi verið einstaklega fræðandi og skemmtilegur.

 Miðvikudaginn 1. október, kl. 17 – 19, munu þau Vala Jóna Garðarsdóttir og Halldór Sævar Guðbrandsson á Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga, vera með samsvarandi fyrirlestur hjá Fræðslumiðstöðinni í Þekkingarsetrinu Skor á Patreksfirði.

Fyrirlesturinn er fólki að kostnaðarlausu og eru allir velkomnir.

Meðfylgjandi myndir af Brynju Arthúrsdóttur og þátttakendum tók Sigurjón Sigurðsson.

Raunfærnimat í gangi

Raunfærnimat í nokkrum greinum er í gangi innan tilraunaverkefnisins um hækkun menntunarstigs í Norðvesturkjördæmi. Nýlega luku 7 menn raunfærnimati í skipstjórn á vegum Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða og áður höfðu 14 manns í kjördæminu lokið raunfærnimati í skipstjórn á vegum símenntunarmiðstöðvarinnar Visku í Vestmannaeyjum. Auk þessara sem þegar hafa lokið raunfærnimati í skipstjórn, hafa um 20 manns lokið undirbúningi og munu gangast undir mat í byrjum október. Flestir þeirra sem gangast undir raunfærnimat í skipstjórn eru frá Vestfjörðum og langflestir þeirra stunda nám í skipstjórnarfræðum til A stigs réttinda við Menntaskólann á Ísafirði. Með raunfærnimatinu fá þeir kunnáttu og reynslu sína til sjós metna á móti áföngum í náminu og stytta þannig eða auðvelda sér námið.

 

Auk raunfærnimats í skipstjórn gangast fræðslu- og símenntunarmiðstöðvarnar í kjördæminu einnig fyrir raunfærnimati í fisktækni (fiskvinnslu). Nú þegar hafa 17 manns lokið mati í fisktækni, allar á Norðurlandi vestra. Í vinnslu er raunfærnimat í fiskvinnslu á Vestfjörðum, slátrun á Norðurlandi vestra og raunfærnimat í félagsliða-, stuðningsfulltrúa- og leikskólaliðagreinum og ná þær greinar alls kjördæmisins. Fáeinir hafa farið í raunfærnimat í öðrum greinum, einkum hjá Iðunni - fræðslusetri.

 

Raunfærnimatið er allt á vegum tilraunaverkefnisins um hækkun menntunarstigs í Norðvesturkjördæmi og fjármagnað af því.

Eldri færslur