Síðla í ágúst 1925 lagðist danska skipið Gustav Holm að Ísafjarðarbryggju en um borð voru 89 Grænlendingar auk danskrar áhafnar á leið norður til Scorebysunds, nánar tiltekið til Ittoqqortoormiit til að stofna þar nýlendu. Aðstæður til veiða voru taldar með besta móti við þennan lengsta fjörð heims en fyrst og fremst var verið að tryggja dönsk yfirráð á svæðinu og koma í veg fyrir landnám Norðmanna sem gerðu kröfu um yfirráð á stórum hluta Austur-Grænlands.
Í Fræðslumiðstöð Vestfjarða við Suðurgötu 12 á Ísafirði hefur verið sett upp sýning um þessa heimsókn Grænlendinganna til Ísafjarðar og er hún opin kl. 9 - 16 virka daga.
Heimskautafarið Gustav Holm kom frá Ammassalik til Ísafjarðar til að taka þar vistir en jafnframt þurfti að vígja prestinn sem þjónusta skyldi sóknarbörn hinnar nýju nýlendu. Heimsóknin varði í þrjá og hálfan sólarhring og naut hluti Grænlendinganna gestrisni heimamanna en hinir fátækustu í hópnum fengu ekki að fara frá borði. Nokkur undirbúningur hafði átt sér stað þegar fréttist af komu skipsins til Ísafjarðar og lögðu bæjarbúar sig fram um að taka sem best á móti hinum útlendum gestum og má segja að heimsóknin hafi orðið til að auka skilning á milli þjóðanna tveggja. Eftir þriggja daga viðkomu á Ísafirði voru landfestar leystar og skipið sigldi norður á bóginn, til Ittoqqortoormiit, nyrstu byggðar Austur-Grænlands. Lífið þar átti eftir að reynast mörgum hinna nýju íbúa erfitt en það er önnur saga. Nú búa í bænum Ittoqqortoormiit um 400 manns, flestir afkomendur þeirra sem komu til Ísafjarðar fyrir 92 árum.
Sýningin er samstarfsverkefni námsbrautar í hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands, Safnahússins á Ísafirði, Byggðasafns Vestfjarða og Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða.
- mánudagurinn 24. júlí 2017
- Dagný Sveinbjörnsdóttir
Í nýjasta tölublaði N4 LANDSBYGGÐIR er stuttur pistill eftir Sigurborgu Þorkelsdóttur verkefnastjóra hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarð um eflingu atvinnulífs í gegnum sí- og endurmenntun. Hér er það sem hún hafði að segja:
Efling atvinnulífs í gegnum sí- og endurmenntun
Góður aðgangur að menntun er einn af þeim mikilvægu þáttum sem skapa jákvæð búsetuskilyrði og á það ekki síður við um endur- og símenntun en hið formlega skólakerfi. Fræðslumiðstöð Vestfjarða leggur áherslu á að vera leiðandi aðili í fræðslu- og símenntun á Vestfjörðum, hvort sem í hlut eiga einstaklingar eða fyrirtæki, enda er það trú þeirra sem að miðstöðinni standa að þannig leggi hún sitt af mörkum til að byggja upp og viðhalda góðu samfélagi. Allt frá upphafi hafa einstaklingar verið duglegir að nýta sér þjónustu miðstöðvarinnar en margt af því sem miðstöðin býður upp á er beint eða óbeint til þess fallið að efla atvinnulíf á svæðinu. Undanfarin misseri hefur miðstöðin lagt aukna áherslu á að vinna með fyrirtækjum og stofnunum að greiningu fræðsluþarfa og gerð fræðsluáætlana með það að markmiði að auka þekkingu og færni starfsfólks. Í framhaldinu getur miðstöðin boðið upp á námskeið eða námsleiðir við hæfi. Oft er talað um að mikilvægt sé að geta laðað til sín hæfasta fólkið. Í sumum tilfellum er hæfasta fólkið þegar í vinnu á vinnustaðnum en það þarf að styðja við það í starfi, bjóða því upp á starfsþróun og að efla sig sem sterkari einstakling og starfsmann. Fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög á Vestfjörðum hafa í auknum mæli verið að nýta sér þjónustu Fræðslumiðstöðvarinnar á þessu sviði.
Raunfærnimat getur verið ein leið til þess að eflast í starfi en raunfærni er samanlögð færni sem einstaklingur hefur náð með ýmsum hætti, s.s. starfsreynslu, starfsnámi, frístundanámi, skólanámi, félagsstörfum og fjölskyldulífi. Með raunfærnimati gefst ófaglærðu fólki tækifæri til að fá reynslu sína úr atvinnulífinu og annars staðar frá, metna á móti námi til þess að stytta leið þess í gegnum nám á sínu sviði. Reynslan er sú að þetta hvetur til náms og skilar fleiri menntuðum einstaklingum út í atvinnulífið. Á þessu ári leggur Fræðslumiðstöðin áherslu á raunfærni í fisktækni og fiskeldi sem eru með stærstu atvinnugreinum á svæðinu og vonast miðstöðin til þess að fyrirtæki í sjávarútvegi hvetji starfsfólk sitt til þess að skoða þennan kost. Fræðslumiðstöðin hefur einnig milligöngu um raunfærnimat í mörgum öðrum greinum og hjálpar fólki að undirbúa sig fyrir matið. Þessi þjónusta er fólki að kostnaðarlausu. Það þykir orðið sjálfsagt í dag að stjórnendur og millistjórnendur, hvort sem er í stofnunum, stórum eða litlum fyrirtækjum, sæki sér aukna þekkingu. Fræðslumiðstöðin sinnir þessum hópi líka t.d. með námskeiðum um verkefnastjórnun, stefnumótun, bókhald, tölvunámskeiðum eða sérhæfðum námskeiðum sem óskað er eftir. Þá hefur miðstöðin átt í góðu samstarfi við Bandalag háskólamanna, BHM, síðustu misseri. Félagið stendur fyrir öflugri fræðslustarfsemi á höfuðborgarsvæðinu félagsmönnum sínum að kostanðarlausu en með samstarfi við Fræðslumiðstöðina hefur félagsmönnum á Vestfjörðum gefist kostur á að sækja námskeið í heimabyggð.
Allt frá upphafi hefur Fræðslumiðstöðin haldið námskeið í íslensku fyrir þá sem eiga annað móðurmál. Kunnátta í íslensku auðveldar þátttöku í samfélaginu á allan hátt, eykur möguleika á vinnu og að eflast í starfi og auðveldar samskipti á vinnustað. Fyrirtæki hafa séð sér hag í að hvetja erlent starfsfólk sitt til þess að styrkja sig í íslenslu og hefur miðstöðin átt gott samstarf við mörg fiskvinnslufyrirtæki varðandi íslenskunám.
Miðstöðin er nú einnig að feta sig í þá átt að bjóða fyrirtækjum upp á íslenskukennslu á vinnustað í vinnutíma og væntir þess að það muni gefa góða raun. Þetta er langt frá því að vera tæmandi listi yfir það hvernig starfsemi Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða snertir atvinnulíf á svæðinu hvort sem það snýr beint að fyrirtækjum og stofnunum eða með því að efla og styrkja einstaklinga þannig að þeir geti vaxið í starfi. Þetta rímar vel við þá hugmyndafræði sem unnið er eftir, að miðstöðin eigi að verða að liði
- fimmtudagurinn 20. júlí 2017
- Dagný Sveinbjörnsdóttir