Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Námskeið um uppeldi barna með ADHD

Markhópur                           

Foreldrar barna sem hafa hamlandi einkenni ofvirkni og/eða athyglisbrests (ADHD) samkvæmt formlegri skimun eða fullnaðargreiningu. Efni námskeiðsins hentar best vegna barna á aldrinum 5–12 ára sem ekki hafa margar eða flóknar fylgiraskanir. 

 

Markmið

Tilgangur námskeiðsins er að fræða foreldra um áhrif ADHD á tilveru barna og styðja þá við að tileinka sér uppeldisaðferðir sem henta börnum með þessa og tengdar raskanir. Foreldrar eru studdir til að skoða núverandi stöðu, gera áætlanir og framfylgja þeim til að taka á eða fyrirbyggja ýmsan vanda sem algengt er að upp komi. Markmiðið er að foreldrar læri hagnýtar og sannreyndar aðferðir sem nýtast þeim til lengri tíma.

 

Fyrirkomulag

Hvert námskeið er 12 klukkustundir sem skiptist í 6 skipti, 2 klst. í senn. Fyrstu 5 skiptin eru  vikulega, þá kemur ein vika án námskeiðstíma og síðasti tíminn er í 7. viku námskeiðs. Í hverjum tíma veita leiðbeinendur fræðslu um ákveðin grundvallaratriði, studd af námskeiðsgögnum. Rík áhersla er lögð á umræður og virka þátttöku foreldra til að tryggja að efnið nýtist hverjum og einum sem best. Í upphafi og við lok námskeiðs eru foreldrar beðnir að fylla út matslista. Milli tíma þarf að vinna heimaverkefni sem rædd eru í næsta skipti og ráðgjöf er gefin um framhaldið.

 

ATH. Þar sem hver áfangi námskeiðsins byggir á því sem á undan er gengið er mikilvægt að gera ráðstafanir til að geta mætt í alla tímana. Mælt er með því að báðir foreldrar sæki námskeiðið.

 

Leiðbeinendur

Leiðbeinendur hverju sinni eru tveir fagaðilar sem eru sérfróðir um ADHD og skyldar raskanir og hafa staðgóða reynslu af vinnu með foreldrum og börnum.

 

Yfirlit innihalds

Tími 1     Einkenni og áhrif ADHD á hegðun barna og samspil þessa við umhverfið. Orsakir óhlýðni og þróun samskipta í fjölskyldum. Grunnatriði atferlismótunar.

Tími 2     Uppeldisfærni og bjargráð foreldra, lykilatriði í uppeldi barna með ADHD, að veita æskilegri hegðun athygli og nota jákvæða athygli markvisst til kennslu.

Tími 3     Daglegt skipulag, rammi, rútína og reglur. Að gefa skýr fyrirmæli og ýta undir hlýðni, góða hegðun, sjálfstæði og sjálfsaga.

Tími 4     Kynning á mismunandi umbunarkerfum; notkun, fyrirkomulag og framkvæmd. Val markhegðunar og umbunar.

Tími 5     Viðurlög við óæskilegri hegðun, mismunandi leiðir. Að taka á hegðun utan heimilis, sjá fyrir mögulega erfiðleika og skipuleggja fyrirbyggjandi aðgerðir og viðbrögð.

Tími 6     Skipulag til framtíðar, hvað á að gera ef hegðun barns versnar, þarf einhverju að breyta í núverandi aðgerðum? Niðurstöður matslista, ráðgjöf, endurgjöf og útskrift.  

 

Tími og skráning

Námskeiðið verður haldið á miðvikudagskvöldum frá 19:30 – 21:30 í húsi Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða Suðurgötu 12. Upplýsingar og bókanir á námskeiðið er á adhdnamskeid@gmail.com

Fyrsti tími verður fimmtudaginn 2. nóvember, og verða næstu tímar á miðvikudögum eftir það, 8.11., 15.11., 22.11., 29.11., og síðasti tíminn verður tveimur vikum síðar eða þann 13. desember.

Verð: 15000 fyrir einstætt foreldri, 20000 fyrir par/hjón. Innifalið í verði eru öll námskeiðsgögn.

   

Nýr (gamall) starfsmaður á Hólmavík

Það er ánægjulegt að segja frá því að í byrjun október bættist í starfsmannahóp Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða þegar Ingibjörg Benediktsdóttir hóf störf sem verkefnastjóri við miðstöðina á Hólmavík. Ingibjörg er ekki alveg ókunnug Fræðslumiðstöðinni en hún er að koma aftur til okkar eftir ár á öðrum vettvangi. Ingibjörg mun hafa umsjón með starfsemi Fræðslumiðstöðvarinnar á Ströndum og í Reykhólahreppi auk þess að sinna öðrum tilfallandi verkefnum.

Fræðslumiðstöðin og Verkalýðsfélag Vestfirðinga hafa gert með sér samkomulag um að Ingibjörg sinni ákveðnum verkefnum fyrir VerkVest. Fræðslumiðstöðin bindur miklar vonir við þetta samstarf og væntir þess að það skili sér í aukinni þjónustu við þá sem búa á svæðinu.

Eldri færslur