Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Gleðileg jól og heillaríkt komandi ár!

Kæru vinir,

Við á Fræðslumiðstöðinni viljum óska ykkur gleðilegra jóla og heillaríks komandi árs. Við þökkum ykkur kærlega fyrir samveruna og viðskiptin á árinu sem er að líða. Hlökkum til nýs námskeiðaárs með ykkur.

Jólakveðjur,

Starfsfólk Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða

Jólaprófin

Hjá flestum er nú jólaundirbúningurinn í hámarki enda styttist óðfluga í hátíðirnar. Jólasveinarnir eru farnir að koma af fjöllum og jólaljós prýða götur og stræti. Það eru þó margir sem eru rétt að hefja þennan undirbúning eða jafnvel ekki byrjaðir. Margir eru grafnir undir glósum og þungum bókum, rauðeygðir af skjánotkun og vökunóttum og skjálfandi af kaffi- og orkudrykkjaneyslu.

Desember er nefnilega ekki bara jólamánuðurinn heldur einnig stór próftökumánuður í skólum. Við venjumst snemma þessari hefð sem við köllum jólapróf og sum okkar hafa kannski átt erfitt með að komast í jólagírinn þegar skólagöngu lauk. Þá leggst hefðin af hjá þeim sem hafa losnað úr prísund skólans en stundum vantar eitthvað, það vantar stressið og þennan unaðslega létti þegar síðasta prófinu líkur.

Háskólasetur Vestfjarða heldur utan um öll fjarpróf á háskólastigi sem tekin eru á Vestfjörðum en hefur samið við Fræðslumiðstöðina að sjá um framkvæmdina á sunnanverðum Vestfjörðum og Ströndum. Þar fá verkefnastjórar miðstöðvarinnar nasasjón af þessari jólaprófahefð og litar það starfið í desember. Sem dæmi þá  eru skráð yfir 40 jólapróf þetta árið á sunnanverðum Vestfjörðum og yfir 20 próftakar úr 8 skólum en þar af hafa slæðst með þrír skólar á framhaldsskólastigi. Próftakar eru allt frá framhaldsskólanemum sem hafa komið snemma heim í jólafrí og geta því tekið fjarpróf heima,  upp í meistaranema í háskóla. Þessir nemar eru að vinna að því að klára háskólabrú, læra hjúkrun og mennta sig sem kennarar, vísindamenn og skipstjórar o.s.frv.

Það má því sannarlega segja að uppgangurinn á sunnanverðum Vestfjörðum síðustu misseri sjáist á breiðu sviði og ekki síst í fræðslu og fróðleiksfýsni íbúa. Okkur hjá Fræðslumiðstöðinni þykir einstaklega gleðilegt að leggja hönd á plóg aukinnar menntunar á svæðinu á þennan hátt.

Eldri færslur