Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Er Grunnmenntaskólinn eitthvað fyrir þig?

Þátttakendur í Grunnmenntaskóla fyrir nokkrum árum.
Þátttakendur í Grunnmenntaskóla fyrir nokkrum árum.

Hjá Fræðslumiðstöðinni er nú verið að kanna hvort grundvöllur sé að fara af stað með nám í Grunnmenntaskóla á Ísafirði og á Hólmavík. Grunnmenntaskólinn er 300 kennslustunda nám sem kennt er eftir námsskrá frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Námið er hugsað fyrir fólk sem hefur litla formlega menntun, eða hefur ekki verið lengi í námi en langar að komast af stað aftur.

Meðal námsþátta eru íslenska, enska, stærðfræði, námstækni og tölvu- og upplýsingatækni. Lögð er áhersla á verkefnavinnu, verklegar æfingar, hópavinnu, umræður og rökræður í stað hefðbundinna prófa.  Í náminu er lögð áhersla á að námsmenn læri að læra, efli sjálfstraust sitt og lífsleikni. Reynslan af Grunnmenntaskólanum er sú að margir koma þar inn með lítið sjálfstraust og vantrú á eigin námsgetu en útskrifast svo með þá fullvissu að auðvitað geti þeir lært og halda margir áfram á þeirri braut.

Náminu er skipt á nokkrar annir (3-4) og kennt er utan hefðbundins vinnutíma, gjarnan tvo seinniparta í viku, en skipulag tekur mið af óskum þátttakenda eins og mögulegt er.

Fræðslumiðstöðin hefur nokkrum sinnum kennt Grunnmenntaskóla; á Ísafirði, Þingeyri, Hólmavík og Patreksfirði, en nokkur ár eru síðan námið var síðast í boði.  

Fimmtudaginn 26. febrúar kl. 18 verður kynning á Grunnmenntaskólanum í húsakynnum Fræðslumiðstöðvarinnar að Suðurgötu 12 á Ísafirði. Allir áhugasamir eru hvattir til að mæta og sjá hvort þetta er eitthvað sem hentar.

Þess má geta að mennta- og menningarmálaráðuneytið veitir heimild til  þess að meta nám í Grunnmenntaskólanum til eininga í framhaldsskólakerfinu en það er undir hverjum framhaldsskóla komið hvort og hvernig það er gert.

17 konur útskrifast úr meðferð matvæla

Nemendurnir 17 ásamt Salome sem kenndi námið.
Nemendurnir 17 ásamt Salome sem kenndi námið.
1 af 2

Frá því í lok október hefur hópur kvenna frá Ísafirði, Bolungarvík, Flateyri og Suðureyri mætt í Fræðslumiðstöð Vestfjarða einu sinni í viku og lært um meðferð matvæla hjá Salome Elínu Ingólfsdóttur næringarfræðingi. 

Meðal þess sem þær hafa fræðst um er gæði og öryggi í meðferð matvæla, matvælavinnsla, geymsluþol, merkingar á umbúðum, hollusta máltíða, ofnæmi og óþol og fæðuflokkar. Í lok námsins fengu konurnar það skemmtilega verkefni að finna mataruppskriftir, breyta þeim á einhvern þann hátt sem gæti aukið hollustu og útbúa svo samkvæmt því. Náminu lauk svo með útskrift þann 10. febrúar s.l. þar sem veitingarnar voru afrakstur verkefnisins.

Meðferð matvæla er 60 kennslustunda nám kennt eftir námsskrá frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og styrkt af Fræðslusjóði.

Starfsfólk Fræðslumiðstöðvarinnar óskar konunum til hamingju með áfangann og er þess fullvisst að þær hafi haft bæði gagn og gaman að.

Eldri færslur