Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

HAM - Leiðtogafærni - Sálrænn stuðningur

Þótt alltaf sé lögð áhersla á fjölbreytni í námskeiðsframboði hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða þá gerist það stundum, alveg óvart, að sjá má ákveðið þema. Stundum er mikið framboð af tölvunámskeiðum, stundum virðast tungumálin ráðandi o.s.frv.  Nú í mars ættu þeir sem vilja rækta sinn innri mann og efla sig í samskiptum, hvort sem er í einkalífi eða starfi, að geta fundið eitthvað við hæfi.

Mánudaginn 9. mars hefst námskeið í hugrænni atferlismeðferð (HAM) en þar er fjallað um aðferðir sem hafa reynst vel við að takast á við vandamál daglegs lífs. Þessar aðferðir nýtast líka vel þegar fólk finnur fyrir vanlíðan eins og t.d. kvíða eða depurð, gengur í gegnum erfiða lífsreynslu eða samskipti við annað fólk veldur vandræðum. Námskeiðið er ekki hugsað sem meðferðarúrræði en tilvalið fyrir alla þá sem vilja kynna sér út á hvað hugræn atferlismeðferð gengur.

Fimmtudaginn 12. mars er fyrirhugað námskeið sem nefnist leiðtogafærni. Námskeiðið er ætlað öllum þeim sem vilja efla sig í leiðtogahlutverkinu hvort sem er í vinnu eða félagsstörfum.  Markmið námskeiðsins er að veita nemendum innsýn í helstu þætti sem stuðla að velgengni leiðtoga á hagnýtan hátt. Á námskeiðinu verður m.a. fjallað um hlutverk leiðtogans og þær áskoranir sem leiðtogar standa frammi fyrir á 21. öld. Farið verður yfir lykilþætti varðandi persónulegra hæfni til að sinna leiðtogahlutverkinu, svo sem að þróa eigin stjórnunarstíl, að eiga árangursrík samskipti og að ná settum markmiðum. Þá verður farið yfir tengsl og árangursríkt samstarf og hvað einkennir leiðtoga, teymi og skipulagsheildir sem ná árangri.

Laugardaginn 14. mars er svo komið að sálrænum stuðningi en slíkt námskeið hefur verið haldið í samvinnu við Rauða krossinn nokkur undanfarin ár. Á námskeiðinu fræðast þátttakendur um gildi sálræns stuðnings í aðstæðum sem geta valdið áföllum. Þátttakendur læra að gera sér betur grein fyrir eðlilegum viðbrögðum fólks sem lendir í sársaukafullum aðstæðum og hvernig þeir geti veitt stuðning og umhyggju. Meðal viðfangsefna eru mismunandi tegundir áfalla, áhrif alvarlegra atvika á einstaklinginn, sálræn skyndihjálp, stuðningur við úrvinnslu alvarlegs atviks og sorg og sorgarferli.

Það er sem sagt af ýmsu að taka fyrir þá sem hafa áhuga á mannlegum samskiptum. Nú er bara að skrá sig!

Er Grunnmenntaskólinn eitthvað fyrir þig?

Þátttakendur í Grunnmenntaskóla fyrir nokkrum árum.
Þátttakendur í Grunnmenntaskóla fyrir nokkrum árum.

Hjá Fræðslumiðstöðinni er nú verið að kanna hvort grundvöllur sé að fara af stað með nám í Grunnmenntaskóla á Ísafirði og á Hólmavík. Grunnmenntaskólinn er 300 kennslustunda nám sem kennt er eftir námsskrá frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Námið er hugsað fyrir fólk sem hefur litla formlega menntun, eða hefur ekki verið lengi í námi en langar að komast af stað aftur.

Meðal námsþátta eru íslenska, enska, stærðfræði, námstækni og tölvu- og upplýsingatækni. Lögð er áhersla á verkefnavinnu, verklegar æfingar, hópavinnu, umræður og rökræður í stað hefðbundinna prófa.  Í náminu er lögð áhersla á að námsmenn læri að læra, efli sjálfstraust sitt og lífsleikni. Reynslan af Grunnmenntaskólanum er sú að margir koma þar inn með lítið sjálfstraust og vantrú á eigin námsgetu en útskrifast svo með þá fullvissu að auðvitað geti þeir lært og halda margir áfram á þeirri braut.

Náminu er skipt á nokkrar annir (3-4) og kennt er utan hefðbundins vinnutíma, gjarnan tvo seinniparta í viku, en skipulag tekur mið af óskum þátttakenda eins og mögulegt er.

Fræðslumiðstöðin hefur nokkrum sinnum kennt Grunnmenntaskóla; á Ísafirði, Þingeyri, Hólmavík og Patreksfirði, en nokkur ár eru síðan námið var síðast í boði.  

Fimmtudaginn 26. febrúar kl. 18 verður kynning á Grunnmenntaskólanum í húsakynnum Fræðslumiðstöðvarinnar að Suðurgötu 12 á Ísafirði. Allir áhugasamir eru hvattir til að mæta og sjá hvort þetta er eitthvað sem hentar.

Þess má geta að mennta- og menningarmálaráðuneytið veitir heimild til  þess að meta nám í Grunnmenntaskólanum til eininga í framhaldsskólakerfinu en það er undir hverjum framhaldsskóla komið hvort og hvernig það er gert.

Eldri færslur