Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Vel heppnuð heimkomuhátíð

Sólveig Bessa Magnúsdóttir og Þuríður Sigurðardóttir.
Sólveig Bessa Magnúsdóttir og Þuríður Sigurðardóttir.

Fræðslumiðstöð Vestfjarða tók þátt í heimkomuhátíð 4. apríl 2015 sem haldin var í húsnæði Háskólasetur Vestfjarða í Vestrahúsinu á Ísafirði. Að hátíðinni komu sveitafélög á svæðinu, fyrirtæki, stofnanir og einstaklingar í nýsköpun og rekstri. Tilgangur hátíðarinnar var að kynna svæðið og möguleika þess fyrir fólk sem hefði hug á að setjast að. 

Forseti Íslands setti hátíðina  kl 15:00 og í framhaldi af því gat fólk farið milli bása og kynnt sér starfsemi og grósku svæðisins, auk þess voru örfyrirlestrar í hliðarsölum. Fræðslumiðstöð Vestfjarða var með bás þar sem rúllaði myndband með svipmyndum og upplýsingum um starfið auk þess sem fólk gat fengið bæklinga um það fjölbreytta úrval náms sem miðstöðin býður upp á og fræðstu um starfsemina hjá starfsfólki miðstöðvarinnar.

Hátíðin var mjög vel sótt og einstaklega vel heppnuð. Höfðu margir á orði að viðburður sem þessi þyrfti að vera árviss, hann væri bæði uppbyggjandi fyrir heimafólk og góður boðskapur til þeirra sem væru í „heimkomuhugleiðingum“.

Að rækta garðinn sinn

Það vorar vonandi bráðum en dagskrá Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða á þessari önn er hverji nærri tæmd. Eiginlega má segja að námskeiðin í apríl og maí snúi að því að rækta garðinn sinn – í beinni og óbeinni merkingu.

Þann 11. apríl er fyrirhugað námskeið um ræktun mat og kryddjurta. Svona námskeið var haldið fyrir nokkrum árum við mjög góðar undirtektir og ánægju þátttakenda. Kennari er Auður Ottesen garðyrkjufærðingur en hún er einn höfundur bókarinnar Matjurtir, ritstjóri tímaritsins Sumarhúsið og garðurinn og margreyndur kennari á ýmiskonar námskeiðum sem snúa að ræktun.

Það gefast líka mörg tækifæri til þess að rækta sjálfan sig, hvort sem er að skerpa á tungumálakunnáttunni (Spænska og Þýska), styrkja sjálfið (Hugræn atferlistmeðferð, Leiðtogafærni) eða sinna tómstundum (Ljósmyndanámskeið, Víravirki). Síðast en ekki síst gefst þeim sem starfa í ferðaþjónustu eða vilja hasla sér völl þar kostur á að eflast í starfi með þremur námskeiðum í leiðsögutækni, gönguleiðsögn og þjónustu.

Sem sagt, nóg um að vera hjá Fræðslumiðstöðinni á vormánuðum og um að gera að skrá sig sem fyrst.

Eldri færslur