Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Fjarnámskeið í íslensku fyrir Taílendinga

Þátttakendur og kennarar á íslenskunámskeiði fyrir Taílendinga vorið 2019
Þátttakendur og kennarar á íslenskunámskeiði fyrir Taílendinga vorið 2019

Undanfarna mánuði hafa þær Elín Þóra Stefánsdóttir og Laddawan Dagbjartsson grunnskólakennarar í Bolungarvík unnið að þróun netnámskeiðs í íslensku fyrir Taílendinga. Námskeiðið var tilraunakennt síðastliðið vor í samstarfi við Fræðslumiðstöðina og var aðsókn mjög góð. Nú er komið að því að halda áfram með verkefnið.

Verkefnið gengur út á að bjóða upp á tveggja ára íslenskuskóla í fjarnámi fyrir Taílendinga. Námið er byggt upp á framburði, orðaforða, málfræði, ritun og samtölum. Einnig er komið inn á menningu, samfélag, náttúru, trúarbrögð og sögu. Námið hentar bæði byrjendum og þeim sem eru lengra komnir. Kennsluefnið er á netinu þannig að nemandi getur æft sig þegar honum henta, en skila þarf verkefnum á ákveðnum tímum og taka þátt í fjarfundum. Í lok hverrar lotu hittast nemendur og gera eitthvað skemmtilegt og gleðjast yfir árangrinum saman.

Gert er ráð fyrir að námið samanstandi af fjórum 30 kennslustunda lotum yfir veturinn og stendur hver lota yfir í sex vikur. Fyrsta lotan byrjar á kynningarfundi nú í september þar sem farið verður yfir fyrirkomulag námskeiðsins og leiðbeint um tæknina sem notuð er við kennsluna. 

Við hjá Fræðslumiðstöðinni erum mjög spennt fyrir þessu verkefni og verður gaman að sjá  hvernig framvinda þess verður.

Þakkir í tilefni af 20 ára afmæli Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða

Starfsfólk Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða á Ísafirði
Starfsfólk Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða á Ísafirði

Starfsfólk Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða vill þakka öllum þeim sem tóku þátt í opnu húsi miðstöðvarinnar í tilefni af 20 ára afmæli hennar. Það var einkar ánægjulegt að svo margir skyldu sjá sér fært að heimsækja okkur á afmælisdaginn. Þá viljum við einnig þakka þeim sem fluttu ávörp í dagskránni, þeim sem fluttu tónlist og sendu blóm, gjafir og hlýjar kveðjur.

Takk öll fyrir að gera daginn eftirminnilegan!

 

Starfsfólk Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða

Eldri færslur