Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Fyrstu námskeið haustsins

Nú eru vetrarstarfið hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða að fara af stað. Eins og alltaf leggjum við áherslu á að bjóða upp á íslenskunámskeið enda er kunnátta í íslensku lykil atriði fyrir þá erlendu íbúa sem vilja vera þátttakendur í samfélaginu. Nú í september er boðið upp á fjögur mismunandi íslenskunámskeið.

Nú í byrjun september er einnig að fara af stað smáskipanám og vélgæslunámskeið sem bæði geta gefið ákveðin atvinnuréttindi.

Lífið má vera skemmtilegt er nýtt námskeið sem fyrirhugað er eftir miðjan september. Þar er áhersla á sjálfsstyrkingu og gleði, nokkuð sem ekki er vanþörf á nú á tímum þegar kulnun er mjög ofarlega á baugi. 

Loks má nefna námskeið um sálræn áföll sem sérstaklega er ætlað heilbrigðisstarfsfólki, starfsfólki í skólum, viðbragðsaðilum og starfsfólki í dómskerfinu sem haldið verður undir lok september.

Þetta er það sem er komið á dagskrá í september en að sjálfsögðu er margt fleira í boði nú í haust. Við hjá Fræðslumiðstöðinni hvetjum fólk  til að kynna sér framboðið og sjá hvort það finnur ekki eitthvað áhugavert hvort sem það er til að eflast í daglegu lífi eða starfi.

Fjarnámskeið í íslensku fyrir Taílendinga

Þátttakendur og kennarar á íslenskunámskeiði fyrir Taílendinga vorið 2019
Þátttakendur og kennarar á íslenskunámskeiði fyrir Taílendinga vorið 2019

Undanfarna mánuði hafa þær Elín Þóra Stefánsdóttir og Laddawan Dagbjartsson grunnskólakennarar í Bolungarvík unnið að þróun netnámskeiðs í íslensku fyrir Taílendinga. Námskeiðið var tilraunakennt síðastliðið vor í samstarfi við Fræðslumiðstöðina og var aðsókn mjög góð. Nú er komið að því að halda áfram með verkefnið.

Verkefnið gengur út á að bjóða upp á tveggja ára íslenskuskóla í fjarnámi fyrir Taílendinga. Námið er byggt upp á framburði, orðaforða, málfræði, ritun og samtölum. Einnig er komið inn á menningu, samfélag, náttúru, trúarbrögð og sögu. Námið hentar bæði byrjendum og þeim sem eru lengra komnir. Kennsluefnið er á netinu þannig að nemandi getur æft sig þegar honum henta, en skila þarf verkefnum á ákveðnum tímum og taka þátt í fjarfundum. Í lok hverrar lotu hittast nemendur og gera eitthvað skemmtilegt og gleðjast yfir árangrinum saman.

Gert er ráð fyrir að námið samanstandi af fjórum 30 kennslustunda lotum yfir veturinn og stendur hver lota yfir í sex vikur. Fyrsta lotan byrjar á kynningarfundi nú í september þar sem farið verður yfir fyrirkomulag námskeiðsins og leiðbeint um tæknina sem notuð er við kennsluna. 

Við hjá Fræðslumiðstöðinni erum mjög spennt fyrir þessu verkefni og verður gaman að sjá  hvernig framvinda þess verður.

Eldri færslur