Fræðslumiðstöð Vestfjarða leitar að verkefnastjóra í 50% starf í tengslum við Gefum íslensku séns. Starfið er laust frá og með 1. febrúar 2025. Stafið felur í sér umsjón með átakinu og skipulagningu viðburða. Vegamikill þáttur er hugmyndavinna og þróun verkefnisins, ásamt því að hafa umsjón með viðburðum og gerð efnis í ýmsu formi sem líta mun dagsins ljós í nafni átaksins. Þetta er áhugavert starf fyrir þá sem vilja vinna með íslenskt tungumál, inngildingu, samfélagslega ábyrgð og félagslega virkni í fjölmenningarlegu samfélagi. Verkefnastjóri þarf að geta unnið sjálfstætt og í hóp, vera framsækinn og búa yfir frumkvæði. Nánari upplýsingar má fá í gegnum saedis@frmst.is eða í síma 456-5025.
Menntunar- og hæfniskröfur
- Háskólamenntun og starfsreynsla sem nýtist í starfi
- Góð kunnátta í íslensku í ræðu og riti. Önnur tungumálakunnátta er kostur
- Mikil hæfni í mannlegum samskiptum
- Skipulagshæfni
- Innsæi og metnaður í starfi
- Frumkvæði og sveigjanleiki í starfi
Verkefnastjóri ætti að geta hafið störf 1. febrúar 2025. Starfið er til eins árs eða 31. janúar 2026. Upplýsingar veitir Sædís María Jónatansdóttir, forstöðumaður, í síma 450 5025 eða saedis@frmst.is
Umsóknir (kynningarbréf og ferilskrá), sendist á Fræðslumiðstöð Vestfjarða eða í tölvupósti á saedis@frmst.is. Fræðslumiðstöð áskilur sér rétt til að hafna öllum umsóknum.
Umsóknarfrestur er til og með 15.11.2024.
- þriðjudagurinn 22. október 2024
- Sædís María Jónatansdóttir
Árlegur haustfundur Símenntar, samtaka fræðslu- og símenntunarmiðstöðva fór fram á á Ísafirði dagana 26. og 27. september. Á fundinum komu saman rúmlega 50 manns frá símenntunarmiðstöðvum um allt land, bæði forstöðumenn og verkefnastjórar, og ræddu ýmis mál sem snúa að fullorðinsfræðslu.
Íslenskukennsla fékk töluvert pláss á fundinum enda eru íslenskunámskeið ein af mikilvægum stoðum í námsframboði allra miðstöðvanna og málefni sem töluvert er í umræðunni þessi misserin. Meðal annars kynnti Ólafur Kristjánsson verkefnið Gefum íslensku séns sem er samstarfsverkefni Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða og Háskólaseturs Vestfjarða. Þá kynnti hópur verkefnastjóra í íslenskunámi vinnu undanfarinna mánaða sem snýr að því að samræma ýmislegt varðandi íslenskunám á milli miðstöðva.
Gunnar Ólafsson hjá Blábankanum á Þingeyri hélt erindi sem hann kallað Notkun forvitnitóla til fullorðinsfræðslu og fjallaði um gervigreind og hvernig hún getur nýst starfsfólki símenntunarmiðstöðva. Í framhaldinu deildu fulltrúar nokkurra miðstöðva reynslu sinni af notkun gervigreindar. Rætt var um áskoranir og tækifæri sem fylgja þessari tækni og mikilvægi þess að starfsfólk tileinki sér notkun gervigreindar frekar en nú er.
Ýmis önnur mál voru á dagskrá meðal annars markaðsmál, vika símenntunar og kynningar á námskrám og verkefnum sem miðstöðvar hafa verið að þróa.
Auk formlegra fundahalda var að sjálfsögðu lögð áhersla á að efla tengsl á milli fólks með það að markmiði að auka samskipti og samvinnu á milli miðstöðva. Það er trú Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða að vel hafi tekist til og vonum við að öll hafi snúið heim með nýjar hugmyndir og gleði í hjarta.
- föstudagurinn 27. september 2024
- Dagný Sveinbjörnsdóttir