Yfirmenn nota tímann til endurmenntunar
Skipstjórar, stýrimenn og vélstjórar á skipum Hraðfrystihússins Gunnvarar hf. Í Hnífsdal nota tímann í verkfalli undirmanna til endurmenntunar. Þeir og fyrirtækið leituðu til Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða um að skipuleggja nám fyrir hópinn. Undanfarnar tvær vikur hafa þeir verið í Fræðslumiðstöðinni og aukið færni sína í tölvum, samskiptum og mismunandi vinnustaðamenningu auk fagtengdra þátta.
Mennirnir mæta oftast um kl. 10 og eru til kl. 17 og hafa þá verið við nám í 9 kennslustundir. Að þeirra sögn er þetta kærkomið tækifæri til endurmenntunar þó svo að þeir vildu frekar vera við veiðar. Starfsfólk Fræðslumiðstöðvarinnar er mjög ánægt að fá þessa góðu og áhugasömu nemendur í húsið og verða þeim að liði.
Fræðslumiðstöðin skipuleggur námið aðeins eina viku fram í tíman þar sem ekki er vitað hvenær samningar nást í sjómannaverkfallinu.