Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Útskrift úr hlífðargassuðu

Fjórir af fimm nemendum við útskrift úr hlífðargassuðunni.
Fjórir af fimm nemendum við útskrift úr hlífðargassuðunni.

Föstudaginn 29. maí s.l. útskrifuðust fimm nemendur úr hlífðargassuðu. Um er að ræða 138 kennslustunda nám sem nær yfir eina önn.  Í náminu kynntust nemendur TIG og MIG/MAG suðu, efnisfræði málma, öryggisfræði auk verknáms þar sem nemendur fengu að spreyta sig. Svo fór að allir nemendur smíðuðu sér útigrill sem hluta af verknámi.

Kennarar voru feðgarnir Jakob Tryggvason og Tryggvi Sigtryggsson. Bókleg kennsla fór fram í verkmenntahúsi Menntaskólans á Ísafirði en verkleg kennsla var að mestu hjá 3X Tecnology.

Nám í hlífðargassuðu er kennt samkvæmt námsskrá sem kallast Suðumaðurinn. Um er að ræða samstarfsverkefni Fræðslumiðstöðvarinnar, Menntaskólans á Ísafirði og 3X Tecnology og er námið ætlað þeim sem hafa hug á að vinna í framleiðslufyrirtækjum við hlífðargassuðu með sérstakri áherslu á ryðfrítt stál.

Markmiðið með náminu er að nemendur verði færir um að vinna við TIG og MIG/MAG-suður og að því loknu eiga nemendur að geta unnið sérhæfð störf í framleiðsluiðnaði.

Þetta er í annað skipti sem boðið er upp á nám í hlíðargassuðu í samstarfi þessara aðila. Að þessu sinni var námið kostað af verkefni um hækkað menntunarstig í Norðvesturkjördæmi.

Fræðslumiðstöðin óskar nemendunum fimm til hamingju með áfangann og þakkar samstarfsaðilunum gott og farsælt samstarf.

Deila