Tvö námskeið fyrir fólk á vinnumarkaði
Dagana 13. og 14. nóvember verður boðið upp á tvö námskeið fyrir fólk á vinnumarkaði í samvinnu við VerkVest og FosVest. Annars vegar er námskeið sem fjallar um réttindi og skyldur starfsmanna á opinberum vinnumarkaði og hins vegar námskeið um ráðningasamninga.
Á fyrra námskeiðinu verður meðal annars farið yfir þau lög og reglur og ákvæði kjarasamninga sem gilda um réttindi og skyldur starfsmanna á opinberum vinnumarkaði og að hvaða leyti þær eru frábrugðnar reglum á almennum vinnumarkaði. Áhersla verður lögð á upphaf starfs og starfslok opinberra starfsmanna. Fjallað verður um reglur um auglýsingu starfa, ráðningar opinberra starfsmanna, gerð ráðningasamnings og mikilvægi hans. Þá er fjallað um helstu réttindi s.s. veikindarétt. Farið verður yfir helstu reglur sem gilda um uppsagnir opinberra starfsmanna, uppsagnir vegna skipulagsbreytinga, viðbrögð við brotum opinberra starfsmanna í starfi, niðurlagningu starfa, brotthvarf úr starfi og biðlaunarétt.
Á síðara námskeiðinu verður sjónum beint að gerð ráðningarsamnings og þýðingu hans fyrir starfsmann og atvinnurekanda. Fjallað verður um mun þess að vera launþegi og verktaki og svokallaða gerviverktöku. Veitt er yfirsýn yfir helstu lög, reglur og kjarasamningsákvæði ásamt kröfum um innihald og form ráðningarsamninga. Fjallað verður um skyldu atvinnurekanda og starfsmanns til að gera ráðningarsamning. Einnig fjallað um launaseðla, uppbyggingu þeirra, frádráttarliði, greiðslur og gjöld atvinnurekanda og annað sem á að koma fram á launaseðli. Komið verður inn á kosti og galla þess að vera verktaki, ábyrgð og skyldur ásamt sköttum og gjöldum sem verktaki þarf að standa skil á.
Námskeiðin eru haldin í húsakynnum Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða að Suðurgötu 12 á Ísafirði og standa frá 19:00 til 21:40. Kennari er Fjóla Pétursdóttir lögfræðingur.
Verð fyrir hvort námskeið er 5.200 kr. Athugið að VerkVest og FosVest greiða fyrir sína félagsmenn.