Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Tilkoma Hnyðju stórbætir aðstöðu til fullorðinsfræðslu á Hólmavík

Neðsta hæðin í Þróunarsetrinu á Hólmavík, sem hlotið hefur nafnið Hnyðja, var opnuð með formlegum hætti á föstudaginn 4. maí s.l.

Hnyðja er móttaka sveitarfélagsins Strandabyggðar, fundaraðstaða og fræðsluaðstaða, auk þess sem hún er skemmtilegt rými fyrir sýningar og viðburði. Þá er fyrirhugað að framhaldsdeild á Hólmavík geti hafið starfsemi sína í Hnyðju haustið 2013. Fræðslumiðstöð Vestfjarða, Verkalýðsfélag Vestfirðinga og Þróunarsetrið á Hólmavík koma að enduruppbyggingu Hnyðju með sveitarfélaginu Strandabyggð, auk þess sem sótt er um styrki í verkefnið.

Hnyðja gjörbreytir allri aðstöðu til námskeiðahalds fyrir Fræðslumiðstöðina. Hingað til hafa námskeið verið haldin vítt og breitt um þorpið, auk þess sem aðstaða til fjarfunda hefur að undanförnu verið fremur bágborin. Með tilkomu Hnyðju er nú kominn salur sem hentar vel þörfum fullorðinsfræðslunnar. Auk þess hefur Fræðslumiðstöðin aðgang að viðtalsherbergi í Hnyðju sem hentar til dæmis vel fyrir náms- og starfsráðgjafa og til próftöku. Það breytir líka miklu að hafa aðstöðuna í sama húsi og skrifstofu verkefnastjóra, en Kristín Sigurrós Einarsdóttir verkefnastjóri hefur haft aðsetur í Þróunarsetrinu frá árinu 2008.

Fræðslumiðstöðin er þegar farin að nýta sér aðstöðuna í Hnyðju því að smáskipanám var kennt þar alla helgina og er það næstsíðasta kennsluhelgin í þessu námi, sem sjö þátttakendur úr Strandabyggð, Reykhólasveit og Árneshreppi stunda.

Í tilefni opnunarinnar var boðið upp á vöfflukaffi fyrir gesti og gangandi, tónlistarflutning og listsýningar. Nemendur í Grunnskólanum á Hólmavík og leikskólanum Lækjarbrekku tóku forskot á sæluna um morguninn en þá fór fram hressileg móttaka með unga fólkið í öndvegi.

Fyrsta sýningin sem opnuð var í Hnyðju er ljósmyndasýning hins danska Brians Berg, Víf og viður. Á henni gefur að líta fjölmargar frábærar ljósmyndir af myndarkonum á Ströndum. Stuttmyndin Water in dress eftir hina frönsku Clementine Delbeq var frumsýnd við opnunina, en hún var m.a. tekin upp í Bragganum með aðstoð fjölmargra Strandamanna. Nafngjafinn var einnig heiðraður, en það var Arnar S. Jónsson tómstundafulltrúi í Strandabyggð sem átti hugmyndina að nafninu Hnyðja og var hún valin úr rúmlega hundrað innsendum tillögum.
Deila