Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Svartfugl, Sturlunga og Lög og réttur

Í næstu viku verður boðið upp á þrjú námskeið í gegnum fjarfundabúnað frá EHÍ ef næg þátttaka fæst. Mikilvægt er að skrá sig sem fyrst.

Mánudaginn 20. apríl hefst námskeiðið Lög og réttur fyrir 50 ára og eldri. Tilgangur þess er almenn fræðsla um lög og rétt sem varða fólk á þessu aldursskeiði. Á námskeiðinu verður leitast við að fjalla fyrst og fremst um hagnýt atriði svo sem að hverju þarf að gæta varðandi fjármálin, á að sitja í óskiptu búi eða skipta búi ef maki fellur frá, er þörf á að semja erfðaskrá eða endurnýja kaupmála, á maður að stofna til óvígðrar sambúðar eða gifta sig, hvernig er opinberri þjónustu háttað við eldri borgara, hvað ef heilsan bregst, hvaða réttinda nýtur maður þá í sambandi við heilbrigðisþjónustu, o.s.frv.

Námskeiðið er kennt mánudagana 20. og 27. apríl og fimmtudaginn 30. apríl kl. 16:15 - 19:00 (3 skipti). Kennari er Sigríður Logadóttir, cand. jur., LL.M og MBA frá Háskóla Íslands. Námskeiðsgjald er 19.900 kr.
---------------------
Svartfugl eftir Gunnar Gunnarsson hefst einnig mándudaginn 20. apríl kl. 20:15-22:00. Þar mun Jón Yngvi Jóhannsson, bókmenntafræðingur ásamt gestakennurum veita nemendum innsýn í eina vinsælustu og dramatískustu sögu Gunnars Gunnarssonar: Svartfugl. Svartfugl fjallar um morð sem áttu sér stað á bænum Sjöundá á Rauðasandi í byrjun 19. aldar. Fjallað verður um sögulegan bakgrunn sögunnar, tengsl hennar við persónulegt líf Gunnars og ólíkan skilning lesenda og fræðimanna á sögunni í gegnum tíðina. Í lok námskeiðs gefst áhugasömum nemendum kostur á að fara í sjálfstæða ferð á söguslóðir Svartfugls.

Námskeiðið verður kennt mánudagana 20. og 27. apríl og 4. maí kl. 20:15 - 22:00. Námskeiðsgjald er 15.300 kr.
--------------------
Þriðjudaginn 21. apríl er svo boðið upp á Leiðarvísi að Sturlungu þar sem Einar Kárason mun segja sögur upp úr Sturlungu og kynna þannig helstu atburði og lykilpersónur sögunnar um leið og hann dregur upp leiðarvísi inn í söguna. Þetta er námskeið fyrir þá sem langar að lesa Sturlungu en hafa aldrei getað brotist inn í hana.

Námskeiðið verður kennt þriðjudagana 21. og 28. apríl og fimmtudaginn 30. apríl kl. 20:15-22:00. Námskeiðsgjald er 13.400.

Deila