Stjúptengsl – námskeið fyrir fagfólk
Fræðslumiðstöðin vill vekja athygli á því að föstudaginn 12. september kl 9-15 stendur Valgerður Halldórsdóttir félagsráðgjafi fyrir námskeiði um stjúptengsl og verður það haldið í húsakynnum miðstöðvarinnar að Suðurgötu 12 á Ísafirði.
Börn fráskilinna foreldra eru líklegri til að glíma við tilfinningalega erfiðleika, eiga vanda í skóla, verða fyrir einelti, glíma við geðræn vandamál og ánetjast fíkniefnum (www.bvs.is). Rannsóknir benda jafnframt til að stjúpforeldrahlutverkið geti verið mjög streituvaldandi. Stuðningur og skilningur nærsamfélagsins er þeim mikilvægur ekki síður en öðrum fjölskyldum. Verkefni sem stjúpfjölskyldur glíma við eru sum hver þau sömu en önnur eru sérstök. Ekki síst vegna þess að börn sem þeim tilheyra eiga venjulega tvö heimili og foreldrar eiga börn sem tilheyra tveimur og stundum fleirum heimilum.
Það er mikilvægt að fagfólk þekki algeng mynstur og uppákomur í stjúpfjölskyldum svo efla megi þrótt þeirra og styrkja bakland barna og ungmenna. Jafnframt að það sé ekki háð tilviljun hvernig samstarfi er háttað, hvernig mál eru skráð eða við hvern er átt samstarf.
Á námskeiðinu er fjallað m.a. um:
- Sýnileika stjúpfjölskyldna – staðalmyndir og stjúpblindu.
- Algengar áskoranir – goðsagnir og raunveruleika.
- Hver tilheyri fjölskyldu skjólstæðings míns? Bakland, stefna stofnana og mat.
- Hlutverk foreldra, stjúpforeldra, hollustubönd, agamál og tengsl í stjúpfjölskyldum.
- Að vinna með stjúpfjölskyldum –hlutverk fagmannsins.
Námskeiðið er ætlað fagfólki eins og félagsráðgjöfum, sálfræðingum, kennurum á öllum skólastigum, hjúkrunarfræðingum, sýslumönnum, þroskaþjálfum, ljósmæðrum, læknum , prestum, áfengis- og vímuefnaráðgjöfum, kennsluráðgjöfum, lögfræðingum, tómstundafræðingum, íþróttaþjálfurum, náms-og starfsráðgjöfum og öðrum sem vinna með fjölskyldum.
Verð fyrir námskeiðið er 23.000 kr. og er bókin „Hver er í fjölskyldunni? Skilnaðir og stjúptengsl“ eftir leiðbeinanda innifalin.
Tekið er við skráningum á stjuptengsl@stjuptengsl.is. Allar frekari upplýsingar má fá á www.stjuptengsl.is.