Sjö konur ljúka grunnnámi stuðningsfulltrúa

Föstudaginn 12. desember s.l. luku sjö vaskar konur frá Ísafirði og Bolungarvík svokölluðu grunnnámi stuðningsfulltrúa. Námið var á vegum Fræðslusetursins Starfsmenntar sem er í eigu BSRB. Framvegis ? miðstöð símenntunar í Reykjavík sá um kennsluna en Fræðslumiðstöð Vestfjarða hélt utan um það á Ísafirði
Um er að ræða 160 kennslustunda nám. Það hófst í byrjun september og var kennt aðra hverja viku með hjálp fjarfundarbúnaðar. Markmið stuðningsfulltrúanáms er að auka færni og þekkingu fólks á aðstæðum og þörfum fatlaðra með það fyrir augum að auka lífsgæði þeirra. Námið snertir fjölbreytta fleti sálar-, félags- og uppeldisfræði.
Eftir áramótin verður boðið upp á 80 kennslustunda framhaldsnám. Að því loknu fá þátttakendur starfsheitið stuðningsfulltrúi fyrir fatlaða. Stuðningsfulltrúanám er nauðsynleg undirstaða til að fara í brúarnám sem félagsliði.
Fræðslumiðstöðin óskar þessum dugnaðarkonum til hamingju með áfangann!