Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Raunfærnimat í fisktækni á Hólmavík og Drangsnesi

Starfsfólki í fiskvinnslu hefur staðið til boða að fara í raunfærnimat með það að markmiði að fá hæfni sína og kunnáttu metna á móti tilteknum áföngum í fisktækninámi sem Fisktækniskóli Íslands kennir. Raunfærnimatið getur leitt til styttingar á námi þar sem nemendur þurfa þá ekki að taka þá áfanga sem þeir fá metna.

Í síðustu viku voru starfsmenn Fisktækniskólans, Nanna Bára Maríusdóttir sviðsstjóri og Ásdís V. Pálsdóttir verkefnastjóri markaðssviðs, með raunfærnimat á Hólmavík og Drangsnesi.  Alls voru 11 manns sem fóru í matið, 4 á Drangsnesi og 7 á Hólmavík. Nanna og Ásdís voru ánægðar með matsviðtölin og telja að á Ströndum búi mikil þekking meðal starfsfólks fiskvinnslufyrirtækja.

Í framhaldinu er fyrirhugað fara af stað með nám í fisktækni nú á vorönn en ekki liggur enn fyrir á hvaða áföngum verður byrjað. Námið er öllum opið en þeir sem ekki fara í gegnum raunfærnimat taka þá alla áfangana.  

Nám í fisktækni er tveggja ára nám, bæði verklegt og bóklegt. Nemendur læra um vélar, tæki og búnað til að hámarka verðmæti og gæði, gæðakerfi sem notuð eru í fiskvinnslu og um markaði og samkeppni.  Ásamt almennum greinum eru kenndar sérgreinar sem geta gefa réttindi svo sem á lyftara og krana undir 10 tonnum, vélgæslu og skipstjórn á smáskipum. Fisktækninámið getur verið undirbúningur fyrir frekara nám í sjávarútvegs- og matvælafræðum.

Raunfærnimatið og námið í framhaldi er afrakstur vinnu í verkefni um hækkað menntunarstig í Norðvesturkjördæmi sem Fræðslumiðstöð Vestfjarða á aðild að. Námið í fisktækninni sem verður boðið á Ströndum er samvinnuverkefni Fræðslumiðstöðvarinnar og Fisktækniskólans. Nánari upplýsingar má fá hjá Fisktækniskólanum (www.fiskt.is) og hjá Ingibjörgu Benediktsdóttur, verkefnastjóra Fræðslumiðstöðvarinnar á Hólmavík (sími 663 0497).

Raunfærnimat í fisktækni getur verið í boði á fleiri stöðum á Vestfjörðum. Áhugasömum er bent á að hafa samband við Sigurborgu Þorkelsdóttur hjá Fræðslumiðstöðinni í síma 456 5011 eða 892 1623.

Deila