Námsver á Flateyri
Fræðslumiðstöð Vestfjarða hefur fengið aðstöðu fyrir námsver á Flateyri í húsnæði Sólborgar að Eyrarvegi 8.
Námsverið verður formlega opnað föstudaginn 30. september næstkomandi. Að því tilefni verður húsið opið klukkan 17 til 19 fyrir alla þá sem vilja koma og kynna sér þá starfsemi sem þar mun fara fram í vetur.
Haustið 2011 verður boðið upp á fimm námskeið. Námskeiðin standa öllum Flateyringum og öðrum Önfirðingum til boða sér að kostnaðarlausu.
Námsframboð Fræðslumiðstöðvarinnar á Flateyri í haust er fjármagnað með samningi við mennta- og menningarmálaráðuneytið í tengslum við aðgerðir ríkistjórnarinnar um eflingu byggða og atvinnusköpunar á Vestfjörðum.
Meðfylgjandi mynd af Sólborgu, Eyrarvegi 8 á Flateyri, er tekin af vef Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða (http://www.fsi.is/).