Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Námslok í svæðisleiðsögunámi hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða

Svæðisleiðsögumenn
Svæðisleiðsögumenn

Laugardaginn 20. janúar útskrifaði Fræðslumiðstöð Vestfjarða hóp úr námi í svæðisleiðsögn og fór athöfnin fram á Sauðfjársetrinu á Ströndum. Þetta er fjórði hópurinn sem lýkur svæðisleiðsögunámi hjá Fræðslumiðstöðinni frá upphafi. Námi hófst í september 2016 og var kennt á þremur önnum.

Nám í svæðisleiðsögn er víðfermt og fjölbreytt. Fjallað er um jarðfræði Íslands, sögu og menningu, gróður, dýralíf, atvinnuvegi, íslenskt samfélag, bókmenntir og listir. Þátttakendur fræðast um helstu ferðamannastaði á Vestfjörðum, ferðamannaleiðir og læra leiðsögutækni og framsögn. Einvala lið kennara kom að kennslunni, allt leiðsögumenn og/eða sérfróðir um einstaka málaflokka. Námið var að stórum hluta fjarnám en með því móti gafst nemendunum færi á að stunda námið nánast hvar sem var ef þeir höfðu gott netsamband. Hluti námsins var þó kenndur í fimm staðlotum um helgar víðsvegar um Vestfirði. Að margar áliti voru þessar lotur skemmtilegasti hluti námsins því þá fengu þátttakendur tækifæri til að þjálfa sig í praktísku hlutunum og ferðast og fræðast um okkar fallegu Vestfirði.

Ferðamálasamtök Vestfjarða og Vaxtarsamningu Vestfjarða styrktu námið en án þess hefði ekki verið hægt að fara af stað. Auk þess fékkst víða góð fyrirgreiðsla og góðar móttökur hvar sem þátttakendur komu. Bestu þakkir fyrir það. Námið var í góðu samstarfi við Menntaskólann í Kópavogi, leiðsöguskólann enda er mikil velvilji hjá þeim aðilum að aðstoða við svæðisleiðsögunám út um land.

Ferðaþjónusta og ferðamennska fer vaxandi á okkar svæði eins og annars staðar og því er þörfin mikil fyrir vel menntaða leiðsögumenn sem sinna starfi sínu af alúð, fagmennsku og þekkingu. Við hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða óskum þessum glæsilega hóp til hamingju með áfangann.

Deila