Námsleiðir haustsins hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða
Nú liggur nokkuð fyrir hvaða námsleiðir verða í boði hjá Fræðslumiðstöðinni í haust og um að gera fyrir fólk að kynna sér hvort þar leynast ekki tækifæri.
Ein af megin stoðunum í starfsemi Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða eru námsleiðir sem kenndar eru samkvæmt námskrám frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Námsleiðirnar eru stundum kallaðar annað tækifæri til náms en þær eru ætlaðar fullorðnu fólki á vinnumarkaði sem ekki hefur lokið framhaldsskólanámi. Í gegnum tíðina hafa margir hafa nýtt sér þessar námsleiðir til þess að byggja sig upp, eflast á vinnumarkaði eða komast aftur af stað í námi.
Flestar námsleiðir eru fjarkenndar og því aðgengilegar fólki hvar sem er.
Nú í haust stendur til að fara af stað með nokkrar námsleiðir ef þátttaka fæst.
Vinnuumhverfi samtímans – tæknilæsi og tölvufærni. Náminu er ætlað að efla hæfni einstaklinga í tæknilæsi og tölvufærni og gera þeim kleift að halda í við þær hröðu breytingar sem átt hafa sér stað í tæknilausnum í daglegu lífi sem og á vinnumarkaðnum.
Sölu-, markaðs og rekstrarnám – nám fyrir frumkvöðla. Sölu-, markaðs- og rekstrarnám er sérstaklega hagnýtt og hnitmiðað nám fyrir þá sem vilja styrkja eigin rekstur eða þá sem hafa í hyggju að stofna eigið fyrirtæki.
Móttaka og miðlun. Markmið með náminu er að auka hæfni námsmanna við að taka á móti viðskiptavinum og að veita þjónustu og upplýsingar í samræmi við þjónustustefnu fyrirtækja.
Uppleið – nám byggt á hugrænni atferlismeðferð. Markmið námsins er að auka færni námsmanna til að takast á við hamlandi líðan með því að nýta sér aðferðir hugrænnar atferlismeðferðar (HAM) í daglegu lífi og breyta þannig hugsun, tilfinningum og hegðun og í kjölfarið viðhalda betri líðan.
Stökkpallur. Í náminu er lögð áhersla á að byggja upp samskiptafærni, efla sjálfstraust og þjálfa námsmenn til atvinnuþátttöku í mismunandi starfsumhverfi og til áframhaldandi náms.
Fleiri námsleiðir gætu eftir að bætast við. Starfsfólk Fræðslumiðstöðvarinnar er boðið og búið að veita nánari upplýsingar – ekki hika við að hafa samband.