Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Námskeið í skyndihjálp 3.-4. desember

Einu sinni á ári hafa Rauða kross deildir á norðanverðum Vestfjörðum boðið almenningi upp á frítt námskeið í skyndihjálp í samvinnu við Fræðslumiðstöðina. Þetta fyrirkomulag hefur verið við lýði í nokkur ár og námskeiðið ávalt verið vel sótt.

Námskeiðið er ætlað öllum þeim sem vilja læra skyndihjálp og endurlífgun og öðlast öryggi, færni og þekkingu í að veita nærstöddum aðstoð í bráðatilfellum með því að beita á öruggan hátt einföldum aðferðum í skyndihjálp. Þetta er þekking sem getur skilið á milli lífs og dauða og mikilvægt að sem flestir í samfélaginu kunni skil á.

Nú er komið að námskeiði þessa árs, en það verður dagana 3. og 4. desember kl. 18:00-22:00 hvort kvöld. Kennari er Auður Ólafsdóttir, hjúkrunarfræðingur og margreyndur leiðbeinandi hjá Rauða krossinum.  Kennsla fer fram í húsakynnum Fræðslumiðstöðvarinnar að Suðurgötu 12 á Ísafirði.

Þótt námskeiðið sé fólki að kostnaðarlausu er nauðsynlegt að skrá sig. Fræðslumiðstöðin tekur við skráningum, hér á vefnum og í síma 456 5025.

Deila