Náms- og starfsráðgjafar símenntunarmiðstöðvanna virkjaðir í þágu atvinnuleitenda.
FRÉTTATILKYNNING
Fleiri náms- og starfsráðgjafar virkjaðir í þágu atvinnuleitenda.
Miðvikudaginn 28. október 2009 var undirritaður samningur milli Vinnumálastofnunar, KVASIS, samtaka fræðslu- og símenntunarmiðstöðva og Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins um náms- og starfsráðgjöf fyrir atvinnuleitendur. Á vegum fræðslu- og símenntunarmiðstöðva starfa náms- og starfsráðgjafar, sem munu með þessum samningi taka þátt í að ná til atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins og hvetja þá til virkni.
Atvinnuleysi er nú yfir 7% á landsmælikvarða, en mismunandi eftir svæðum. Mest er atvinnuleysið á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum. Þörfin fyrir náms- og starfsráðgjöf hefur aukist mjög mikið án þess að fjárveitingar hafi aukist í sama mæli til að mæta ráðgjafaþörfinni á vegum Vinnumálastofnunar.
Fræðslumiðstöð atvinnulífsins hefur á grundvelli samnings ASÍ og SA við menntamálaráðuneytið greitt fyrir náms- og starfsráðgjöf hjá símenntunarmiðstöðvum. Umfang þess starfs eru um 7 föst stöðugildi náms- og starfsráðgjafa á 10 fræðslu- og símenntunarmiðstöðvum um allt land . Auk þess hefur verið svigrúm til að greiða fyrir meiri vinnu námsráðgjafa eftir þörfum á hverju svæði fyrir sig. Það má því reikna með að sú aukning sem verður í náms- og starfsráðgjöf með þessum samningi sé á bilinu 7-9 þúsund einstaklingsviðtöl á ársgrundvelli. Það er góð viðbót við þá ráðgjafaþjónustu sem Vinnumálastofnun veitir en á þjónustuskrifstofum hennar starfa um 20 ráðgjafar sem geta áorkað um 20 ? 25 þúsund einstaklingsviðtölum á ári.
Markmiðið með samningnum er fyrst og fremst að ná til þess stóra hóps sem er án framhaldsskólamenntunar og hefur verið lengst á atvinnuleysisskrá. Þeir sem hafa eingöngu grunnskólapróf, sem síðustu prófgráðu eru um 30% fólks á vinnumarkaði, en yfir 50% þeirra sem eru á atvinnuleysisskrá. Sami hópur er einnig stærstur af þeim sem eru langtímaatvinnulausir.
Það er þekkt staðreynd að langtímaatvinnuleysi getur haft varanleg áhrif á andlegt ástand og atvinnuhæfni fólks. Það er því sérstaklega mikilvægt að hægt sé að grípa inn í þá þróun fyrr en síðar.
Atvinnuleitendur geta á grundvelli þessa samnings átt von á að vera kallaðir til skylduviðtals á vegum fræðslu- og símenntunarmiðstöðvanna, en ekki eingöngu hjá Vinnumálastofnun eins og áður hefur verið.
Nánari upplýsingar veita:
Inga Dóra Halldórsdóttir, sími 863-0862
Gissur Pétursson, sími 898-4507
Ingibjörg Elsa Guðmundsdóttir, sími 898-1778
Á myndinni eru Inga Dóra Halldórsdóttir, formaður KVASIS, samtaka fræðslu- og símenntunarmiðstöðva, Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar og Ingibjörg Elsa Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins nýbúin að skrifa undir samninginn.