Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Mikið um að vera í nóvember

Það er ýmislegt á döfinni hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða í nóvember sem bæði má hafa gagn og gaman af.

Fræðslumiðstöðin er í samstarfi við Gústaf Gústafsson forstöðumann Markaðsstofu Vestfjarða og VerkVest um námskeið um markaðsmál og almannatengsl. Hægt er að velja um tvær dagsetningar, annað hvort laugardaginn 5. nóvember eða þriðjudaginn 9. nóvember. Námskeiðið er haldið á Hótel Ísafirði. Þetta er kjörið tækifæri fyrir þá sem starfa við markaðssamskipti eða vilja fá innsýn í þann heim.

Þann 10. nóvember verður annað námskeiðið í námskeiðaröðinni Tónlistin frá ýmsum hliðum sem Fræðslumiðstöðin og Listaskóli Rögnvaldar Ólafssonar standa saman að. Að þessu sinni ber námskeiðið það skemmtilega heiti Ó, þessar óperur. Þar mun Júlíus Karl Einarsson baritón söngvari fara yfir það hvernig óperan varð til sem listform og hvernig hún hefur dafnað og þróast í gegnum aldirnar. Mismunandi leiðir kynntar til að nálgast óperur og hafa gaman af þeim. Stutt kynning verður á raddtegundum söngvara og hljómsveitaskipan með mynd- og tóndæmum. Námskeiðið er haldið í Edinborgarhúsinu.

Sama dag, þann 10. nóvember, er einnig boðið upp á fyrirlestur í fjarfundabúnaði sem ber heitið Eiturefna-úrgangsruslaskrímslið. Þar mun Edda Björgvinsdóttir fjalla um á sinn einstaka hátt hvernig manneskja með lítinn sjálfsaga getur breytt mataræði sínu úr ruslmat í vítamínríkt fæði, hvernig lélegur kokkur getur búið til gómsæta heilsurétti, hvaða eiturefni við erum að innbyrða daglega í svokölluðum ?hollustu?mat og fleira í þeim dúr.

Það styttist til jóla og tvö af námskeiðum nóvembermánaðar má vel nýta til þess að koma sér í jólastemminguna. Annars vegar er námskeið þar sem kennt verður að þæfa dúka eða púða, upplagt til dæmis í jólagjafirnar. Það námskeið verður mánudaginn 14. nóvember. Hins vegar er námskeið í konfektgerð sem haldið verður í Bolungarvík þriðjudaginn 22. nóvember.

Þann 17. Nóvember er komið að öðrum fyrirlestrinum í röð fræðsluerinda sem Náttúrustofa Vestfjarða, Rannsóknarsetur HÍ á Vestfjörðum og Fræðslumiðstöðin standa saman að. Þá mun Þorleifur Einarsson forstöðumaður Náttúrustofu og dýrafræðingur fjalla um fjölbreytni smádýralífs.

Að lokum má geta þess að í nóvember verður haldið námskeið í almennri skyndihjálp í samvinnu við og í boði Rauðakrossdeilda á norðanverðum Vestfjörðum. Kennt verður tvö kvöld, endanleg dagsetning hefur ekki verið ákveðin en verður auglýst mjög fljótlega hér á vef Fræðslumiðstöðvarinnar.


image
Það er ýmislegt sem hægt er að læra í Fræðslumiðstöðinni, þessi mynd er frá nýlegu námskeiði þar sem íslenskunemar læru að setja þæfða ull utan um lampa og skreyta.
Deila