Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Leiðsögumenn útskrifaðir

Laugardaginn 14. maí s.l. voru útskrifir 23 leiðsögumenn, sem lokið höfðu þriggja anna svæðisleiðsögunámi um Vestfirði og Dali. Námið var skipulagt af Fræðslumiðstöð Vestfjarða undir faglegri stjórn Leiðsöguskólans í Kópavogi. Athöfnin fór fram í Flókalundi og hófst á því að gengið var í Surtarbrandsgilið hjá Brjánslæk, þar sem leiðsögumenn kepptust um að lýsa tilurð surtarbrandsins og notagildi gróðurmenja sem hann hefur að geyma til að ákvarða loftslag og gróðurfar á Íslandi á fyrri hlýskeiðum jarðsögunnar.

Hópurinn sem nú útskrifaðist er þriðji hópurinn sem lýkur svæðisleiðsögunámi á Vestfjörðum og annar hópurinn sem Frmst heldur utan um. Fyrsti hópurinn stundaði námið 1993 til 1994 og annar hópurinn árin 2004 til 2005. Auk Vestfjarða náði svæðið sem tekið var fyrir 2004 ? 2005 einnig yfir Snæfellsnes og var svæðisleiðsögnin því kennd í samstarfi við Símenntunarmiðstöð Vesturlands. Nú náði svæðið yfir Dalina auk Vestfjarðanna.

Umsjón með náminu hafði Kristín Sigurrós Einarsdóttir starfsmaður Fræðslumiðstöðvarinnar á Ströndum.

Námið nú var skipulagt sem 8 helgarlotur víðsvegar um svæðið, auk 9. lotunnar í próf. Tvær lotur voru á vorönn 2010 og þrjár lotur á sitthvorri önninni veturinn 2010 ? 2011. Á milli helgarlotanna unnu nemendur verkefni sem miðlað var á netinu. Alls komu 16 manns að kennslu.

Svæðisleiðsögunámið er strembið nám og má kalla mjög gott að af um 40 þátttakendum sem skráðu sig í námið skuli nú 23 hafa lokið því. Nokkrir aðrir eru langt komnir og munu ljúka næsta haust. Þennan góða árangur má meðal annars þakka því að í hópnum náðist upp mjög góð stemming þar sem hver studdi annan og fann til samábyrgðar með hópnum. Í námi hjá Fræðslumiðstöðinni sýnir það sig sífellt að slíkt er nauðsynlegt til að góður árangur náist.

Ferðamálasamtök Vestfjarða og Vaxtarsamningur Vestfjarða styrktu námið fjárhagslega og er þeim hér með þakkaður stuðningurinn.
image
Deila