Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Kynning á raunfærnimat - opinn fundur

Fimmtudaginn 22. janúar n.k. kl 20:00 stendur Fræðslumiðstöð Vestfjarða fyrir opnum kynningarfundi um raunfærnimat. Fundurinn er ætlaður öllum þeim sem starfa við iðngreinar en hafa ekki lokið sveinsprófi. Vinnuveitendur eru einnig hvattir til að mæta og kynna sér málið.

Raunfærnimat er aðferð fyrir þá sem komnir eru út á vinnumarkað til að fá færni sína, þekkingu og menntun metna til eininga í formlegu námi. Að loknu raunfærnimati liggur fyrir hvað einstaklingurinn þarf að ljúka mörgum einingum eða áföngum til að ná ákveðnum áfanga, t.d. sveinsprófi.

Raunfærnimat er ætlað þeim sem eru 25 ára og eldri, hafa unnið við iðngrein í að minnsta kosti 5 ár en hafa af einhverjum ástæðum ekki lokið námi í greininni. Búið er að þróa raunfærnimat í allmörgum iðngreinum en ekki öllum.

Á fundinum mun Björn Hafberg, náms- og starfsráðgjafi Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða kynna matið, hvernig það fer fram, hvaða greinar það nær yfir og hvað tekur við að matinu loknu. Einnig verða fulltrúar frá Menntaskólanum á Ísafirði á staðnum, en Fræðslumiðstöðin og Menntaskólinn hafa með sér nána samvinnu við raunfærnimat.
Deila