Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Kynning á Smiðju í hönnun og handverki í Vísindaporti 1. mars

Undanfarinn mánuð hefur staðið yfir Smiðja í hönnun og handverki hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða. Föstudaginn 1. mars munu þátttakendur í Smiðjunni segja frá afrakstri og fjögurra vikna vinnuferli smiðjunnar í Vísindaporti sem haldið er í hádeginu á hverjum föstudegi hjá Háskólasetri Vestfjarða.

Höfuðþema smiðjunnar var VESTFIRSK SKATA ? nýsköpun í gerð söluvarnings fyrir ferðamenn á Vestfjörðum. Kennt var í tveimur tveggja vikna lotum sem hver um sig var 60 kennslustundir. Í fyrri lotunni fengu nemendur innsýn í aðferðafræði hönnuða og handverksfólks auk þess sem þeir lærðu að skilgreina ýmis hugtök og nýta sér vinnudagbók/skissubók til að safna upplýsingum og þróa hugmyndir. Í seinni lotunni nýttu nemendur sér það sem þeir lærðu í fyrri lotunni til að hanna og búa til prufueintök til framleiðslu.

Fjölmargir sérfræðingar voru kallaðir til, ýmist til að halda stuttar kynningar og fyrirlestra, eða til að kenna ákveðið handverk, aðferðafræði og/eða meðferð efnis. Einnig var fjallað um hinar ýmsu aðferðir við markaðssetningu, gæðaeftirlit og vöruþróun.

Nemendurnir, sem eru fjórtán talsins, fóru saman í gegnum ferli þar sem þeir skoðuðu og greindu helstu sérkenni fjórðungsins, kortlögðu mögulega sölustaði, rannsökuðu viðfangsefnið - skötuna - frá ýmsum hliðum, kynntu sér stöðu og þróun ferðaþjónustunnar á svæðinu og sköpuðu sínar útfærslur á söluvarningi sem fellur að þemanu sem unnið var með.

Elísabet Gunnarsdóttir skipulagði verkefnið og hafði umsjón með Smiðjunni.
image
Deila