Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Íslenskukennsla fyrir útlendinga til umfjöllunar í ráðherranefnd um íslenska tungu

Mánudaginn 16. janúar síðastliðinn kynnti Sólveig Hildur Björnsdóttir, formaður Símenntar - samtaka fræðslu- og símenntunarmiðstöðva, ráðherranefnd um íslenska tungu hugmyndir félagsins um tækifæri og leiðir til að efla íslenskukennslu fyrir útlendinga. Þá sótti Sólborg Jónsdóttir, verkefnastjóri hjá Mími, fundinn með Sólveigu.

„Við erum þakklát fyrir að fá tækifæri til að kynna fyrir ráðherrum sýn Símenntar á þróun málaflokksins. Það er vissulega mikilvægt að rödd okkar heyrist sem höfum sinnt þessum málaflokki svo að segja frá upphafi. Mikill meirihluti þeirra sem læra íslensku sem annað mál fer í gegnum símenntunarmiðstöðvar á landinu,“ segir Sólveig og bendir á að þúsundir innflytjenda sæki sér þjónustu hjá símenntunarmiðstöðvum á ári hverju.

„Hjá símenntunarmiðstöðvunum liggur dýrmæt þekking og reynsla af kennslu og ráðgjöf fyrir innflytjendur sem og þátttöku í ýmsum þróunarverkefnum sem varða aðlögun og færni innflytjenda. Símenntunarmiðstöðvarnar sjá um mat á raunfærni einstaklinga til styttingar á námi eða ýmiss konar starfsréttinda. Síðast en ekki síst sjá símenntunarmiðstöðvarnar um íslenskukennslu fyrir útlendinga og alls kyns samfélagsfræðslu, oft í samstarfi við vinnumarkaðinn,“ segir Sólveig.

Á fundinum fóru fulltrúar Símenntar yfir tækifæri og leiðir til að efla íslenskukennslu fyrir útlendinga. „Við nefndum sérstaklega fimm leiðir í þessu sambandi sem fengu að mínu mati góða áheyrn,“ segir Sólveig. „Símennt bindur miklar vonir við stefnumörkun í málaflokknum. Það er von Símenntar að símenntunarmiðstöðvar fái víðtækara hlutverk við að mæta ákalli um aukinn stuðning til handa innflytjendum á Íslandi, ekki síst hvað íslenskukennslu varðar,“ segir Sólveig og bendir á að það felist fjölmörg tækifæri í því kerfi sem símenntunarmiðstöðvar innan Símenntar mynda á landsvísu. „Kerfið hefur nýst vel og er notkun þess mikil. Brýnt er að nýta það betur og í fleiri áttir enda mikil samfélagsleg auðlind sem ákveðin sátt ríkir um. Það er því fagnaðarefni að ríkisstjórnin horfi til þessa í stjórnarsáttmála sínum.“

Á fundinum voru ráðherrar fimm ráðuneyta: Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra , Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra og Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra. Einnig sátu fundinn ýmsir embættismenn og aðrir gestir.

Hér eru tíunduð dæmi um helstu tækifæri og leiðir til að efla íslenskukennslu fyrir útlendinga sem Símennt kom á framfæri á ráðherrafundinum:

1. Miðlæg ráðgjöf og þróun málaflokksins

Til að tryggja mikilvæga þróun fagsins væri æskilegt að kennarar og símenntunarmiðstöðvar gætu leitað sér faglegrar ráðgjafar, t.d. hvað varðar þróun í málaflokknum, kennsluefni, kennsluaðferðir, gagnabanka, hvernig á að koma til móts við fjölbreyttan nemendahóp, ólæsa nemendur o.s.frv.

2. Fagnámskeið fyrir kennara á námskeiðum í íslensku fyrir útlendinga

Þeir sem kenna í málaflokknum geti sótt fagnámskeið þar sem farið væri m.a. yfir gæðaviðmið við kennslu íslensku fyrir útlendinga, kennslufræði fullorðinna, kennslu ólíkra nemendahópa á mismunandi getustigi, menningarnæmi, kennsluefni og fjölbreyttar aðferðir við kennslu í samræmi við hæfniramma um kennslu íslensku fyrir útlendinga.

3. Stefna um skilgreinda hæfni aðfluttra í íslensku og kostnaðarþátttöku hins opinbera

Nauðsynlegt er að kveða á um námskrá og rétt innflytjenda til íslenskukennslu í lögum til þess að gera innflytjendur sýnilega í menntakerfinu og tryggja rétt þeirra til íslenskukennslu. Námskrár í íslensku fyrir útlendinga eru frá 2008 og 2010. Þörf er á endurskoðun þeirra og jafnframt að huga að lagalegri stöðu þeirra. Íslenskukennsla útlendinga er hluti af vernd íslenskrar tungu og því mjög mikilvægt að metnaður sé lagður í að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi. Skilgreina þarf íslenskukennslu fyrir útlendinga í lögum um framhaldsfræðslu og hlutverk símenntunarmiðstöðva sem og Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins í málaflokknum.

4. Skilgreina hæfniramma fyrir málaflokkinn

Mikilvægt er að skilgreina hæfni fyrir íslenskunám innflytjenda með sérstökum hæfniramma þess efnis. Með því má auka samræmi hjá fræðsluaðilum í framboði námskeiða og mat á árangri. Þá þykir nauðsynlegt að fræðsluaðilar skrái helstu upplýsingar um námsstöðu og námsárangur í samræmdan gagnagrunn til að auðvelda úrvinnslu, tölfræði og mat á námi milli skóla. Einnig þurfa nemendur að geta nálgast námsferil sinn í gegnum island.is.

5. Samræmt stöðumat og hæfnimat

Æskilegt er að innflytjendur geti leitað til sérstakra þjónustumiðstöðva sem liðsinna þeim við að fá mat á raunfærni og/eða viðurkenningu á menntun sinni frá heimalandinu. Þar væru símenntunarmiðstöðvarnar heppilegur valkostur.

Deila