Íslenska fyrir Taílendinga
Laddawan Dagbjartsson er Bolvíkingur af erlendum uppruna. Hún er ein af fjölmörgum aðkomnum, sem auðga vestfirskt mannlíf. Meðal annars drífur Laddawan landa sína í íslenskunám og hefur kennt Taílendingum á fjölmörgum íslenskunámskeiðum hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða. Nú síðustu misserin hefur hún notið aðstoðar dóttur sinnar, Lilju Ómarsdóttur við kennsluna. Þær mæðgur eru einmitt með íslenskunámskeið í gangi núna. Fer kennslan fram í húsnæði Verkalýðs- og sjómennafélags Bolungarvíkur.
Forstöðumaður Fræðslumiðstöðvarannar leit við í íslenskutíma s.l. laugardag og heilsaði upp á kennara og nemendur. Laddawan fær gjarnan gesti í kennslustundir hjá sér til að ræða við nemendur og krydda þannig kennsluna. Á laugardaginn hafði hún fengið sóknarprestinn, Ástu Ingibjörgu Pétursdóttur, til að koma í heimsókn og ræða við nemendur um kirkjuna og íslenska kirkjusiði.
Meðfylgjandi mynd af nemendum, kennara og gestum tók Lilja Ómarsdóttir.
Auk íslensku fyrir Taílendinga er hópur Pólverja í Bolungarvík einnig í íslenskunámi og kennir Zofia Marciniak þeim.