Hvar er hægt að sækja námskeið?
Nú þegar Fræðslumiðstöð Vestfjarða er að kynna námsframboðið næsta vetur er rétt að leggja áherslu á að miðstöðin kappkostar að þjóna sem flestum á Vestfjörðum. Flest námskeiðin í námsvísinum sem nú er að koma út eru auglýst á Ísafirði. Stafar það af því að óskir, fyrirspurnir eða ábendingar um þau hafa komið af norðursvæðinu. Fólk annars staðar á Vestfjörðum er eindregið hvatt til að koma óskum sínum á framfæri við Fræðslumiðstöðina. Oft er hægt að setja námskeið upp hvar sem er á Vestfjöðrum og í sumum tilfellum er unnt að fjarkenna námskeið þangað sem er fjarfundabúnaður, þótt þau séu auglýst í staðkennslu. Fræðslumiðstöðin hefur aðgang að fjarfundabúnaði á Hólmavík, Reykhólum, Patreksfirði og Bíldudal.