Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Húsin í bænum - nýtt námskeið

Ísafjörður er meðal elstu kaupstaða landsins og hafa þar varðveist hús og húsaþyrpingar frá öllum byggingaskeiðum þéttbýlis á Íslandi, frá því fyrir 1800 og allt til okkar daga. Það er vinsælt hjá ýmiskonar hópum sem heimsækja Ísafjörð eða koma þar saman að ganga um bæinn og fræðast um húsin.

Það er kannski minna um að heimamenn taki þátt í slíkum viðburðum en nú er einmitt tækifæri til þess að kynnast sögu bæjarins og húsanna því fimmtudaginn 9. október hefst námskeið sem kallast Húsin í bænum. Markmið námskeiðsins er að kynna uppbyggingu og þróun kaupstaðarins á Tanganum í Skutulsfirði, húsin, fólkið og sögurnar. Á námskeiðinu kynnist fólk verslunarhúsum einokunartímans í Neðstakaupstað og fríverslunarinnar í Hæstakaupstað, gamla bæjarkjarnanum á Eyrinni og fínu þvergötunum ofan við Pólgötu, fyrstu steinhúsunum og húsum stofnana nútímans. Saga Íslands og Ísafjarðar endurspeglast í húsum bæjarins, íbúum þeirra og mismunandi hlutverkum.

Námskeiðið ætti að höfðu til allra þeirra sem hafa áhuga á sögu bæjarins og vilja vita meira um sitt nánasta umhverfi.

Það er Sigurður Pétursson, sagnfræðingur sem leiðir þátttakendur í allan sannleikann um húsin í bænum. Hann hefur í mörg ár frætt fólk um byggðina á eyrinni og er, ásamt Sigurjóni J. Sigurðssyni, höfundur bókar sem kom út nú í sumar um húsin í bænum.

Námskeiðið er þrjú skipti, þar af eru tvö skipti í kennslustofu en þriðja skipti göngutúr um eyrina á Ísafirði. Kennt verður á fimmtudögum kl. 17-19. Verð fyrir námskeiðið er 5.900 kr.

Áhugasamir eru hvattir til að skrá sig sem fyrst. Tekið er við skráningum hér á vef Fræðslumiðstöðvarinnar undir námskeið en einnig er hægt að hafa samband í síma 456 5025.

Deila