Grunnmenntaskólanum á Ísafirði slitið
Grunnmenntaskólanum á Ísafirði var slitið þriðjudaginn 7. desember s.l. Tíu nemendur tóku þá við viðurkenningarskjölum frá Smára Haraldssyni forstöðumanni Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða í lok síðustu kennslustundar.
Námið hófst síðast liðið vor og tók því yfir tvær annir. Hafa nemendur Grunnmenntaskólans mætt fjórum sinnum í viku. Má kalla þetta ótrúlega elju og þrautseigju. Slíkt er ekki hægt nema með miklum sjálfsaga og skemmtilegum félagsskap.
Grunnmenntaskólinn er 300 kennslustundir og kenndur samkvæmt námskrá frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Námið má meta til allt að 24 eininga í framhaldsskóla. Það samanstendur af 13 námsþáttum og komu 8 manneskjur að kennslunni.